139. löggjafarþing — 163. fundur,  14. sept. 2011.

fundarstjórn.

[15:33]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegur forseti. Það er ekki bara í hv. utanríkismálanefnd sem beðið er eftir opnum fundum. Beiðnin er búin að liggja frammi í sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd í margar vikur. Það eru óskiljanleg vinnubrögð af hálfu framkvæmdarvaldsins og óásættanleg framkoma gagnvart þinginu þegar borið er á borð fyrir okkur, hv. þingmenn, að bíða þurfi í fleiri vikur eftir því að finna tíma með hæstv. ráðherrum til að taka þátt í slíkum fundum. Ég held við getum öll verið sammála um að það er óásættanleg framkoma gagnvart þinginu.

Hv. þm. Árni Þór Sigurðsson, formaður utanríkismálanefndar, talar um að ómerkilegt sé að hv. þingmenn veki á því athygli úr ræðustól þingsins. Það er ómerkilegt af framkvæmdavaldinu að koma svona fram, ef eitthvað er ómerkilegt í þessu máli og (Forseti hringir.) algerlega óásættanlegt. Ég vil hvetja virðulegan forseta til að beita sér fyrir því að þinginu sé sýnd viðeigandi virðing með því að hlusta á þessar beiðnir.