139. löggjafarþing — 163. fundur,  14. sept. 2011.

fundarstjórn.

[15:34]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F):

Frú forseti. Það er staðreynd að það er á þriðja mánuð síðan fram kom beiðni um að haldinn yrði opinn fundur í utanríkismálanefnd. Ég sá hvernig hv. þm. formaður utanríkismálanefndar og hv. þm. varaformaður utanríkismálanefndar brugðust við óskum og ítrekunum fyrr á þessum septemberstubbi um að sá fundur yrði haldinn. Viðbrögð þeirra einkenndust af mikilli reiði. Maður hlýtur því að velta því fyrir sér hvað það er sem tefur fundarhöld. Hæstv. utanríkisráðherra gat sjálfur óskað eftir því með tveggja tíma fyrirvara að haldinn yrði fundur í utanríkismálanefnd þegar honum hentaði, en þegar beiðni kemur frá hv. þingmönnum um að fram fari opin umræða sem sé sjónvarpað þannig að fólk geti fylgst með því hvað er að gerast í ESB-ferlinu, tekur það á þriðja mánuð.