139. löggjafarþing — 163. fundur,  14. sept. 2011.

afskriftir banka og fjármálastofnana á skuldum heimilanna.

[16:00]
Horfa

Lilja Mósesdóttir (U):

Frú forseti. Í stað þess að reisa skjaldborg um heimilin eins og norræna velferðarstjórnin lofaði var reistur Berlínarmúr um fjármagnseigendur og banka. (Gripið fram í: Rétt.) Skattgreiðendur voru látnir taka á sig fulla innstæðutryggingu til að bjarga fjármagnseigendum og bankar voru endurreistir á grunni ofmetinna eignasafna og eignaupptaka leyfð hjá skuldsettum heimilum til að tryggja milljarða hagnað bankanna á hverju ári. Hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra fullyrðir að bankarnir hafi afskrifað um rúma 500 milljarða á árunum 2009 og 2010. Afskriftir sem ekki finnast í uppgjöri bankanna, enda notaðir til að tryggja hagnað kröfuhafa.

Frú forseti. Eignaupptakan hjá heimilunum fer fram í gegnum verðtrygginguna sem býr til okurvexti, sértækar afskriftir tapaðra skulda niður í aðeins 110% skuldsetningu og gjaldþrot of skuldsettra heimila með syndaaflausn eftir tvö ár. Eignarhlutur heimila sem tóku 70% lán og hafa greitt samviskusamlega af lánum sínum er að hverfa. Sífellt fleiri íhuga að hætta að borga vegna þess að þeim misbýður milljarða afskriftir bankanna hjá vildarvinum þeirra.

Frú forseti. Norræna velferðarstjórnin hefur ekki einu sinni haft rænu á að tryggja þeim þak yfir höfuðið sem missa nú húsnæði sitt til bankanna og geta ekki greitt markaðsleigu. Hvar er húsnæðisöryggið og norræna húsnæðiskerfið með eignarleigu- og búseturéttaríbúðum sem hin norræna velferðarstjórn lofaði í samstarfsyfirlýsingu sinni? (Gripið fram í: Heyr, heyr.)