139. löggjafarþing — 163. fundur,  14. sept. 2011.

afskriftir banka og fjármálastofnana á skuldum heimilanna.

[16:03]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég væri tilbúin til að standa hér margar nætur og mörg kvöld til að ræða það málefni sem er á dagskrá. Það eru þessi málefni sem skipta þjóðina máli, frú forseti, en ekki þau málefni sem hæstv. ríkisstjórn ber á borð fyrir alþingismenn nú um stundir.

Það er einnig athyglisvert að hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra skuli ekki vera í salnum. Hvers vegna er hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra ekki viðstaddur þessa umræðu til að svara fyrir þær spurningar sem koma fram þar sem hann ber ábyrgð á málaflokknum? (Gripið fram í.) Hæstv. velferðarráðherra er í staðinn og það er gott að einhver ráðherra vilji standa hér og svara fyrir það umræðuefni sem er á dagskrá, þ.e. afskriftir banka og fjármálastofnana á skuldum heimilanna.

Hæstv. forsætisráðherra situr hér og hlustar. Hæstv. forsætisráðherra var talsmaður þess að afnema verðtryggingu þau rúmu 30 ár sem hún var óbreyttur þingmaður. Nú hefur hæstv. forsætisráðherra verið í ríkisstjórn í rúm fjögur ár og sat meira að segja í hrunstjórninni ásamt núverandi hæstv. utanríkisráðherra. Hvað hefur hæstv. forsætisráðherra gert á þessum árum sem hún hefur setið í ríkisstjórninni í þá átt að afnema verðtryggingu á lánum? (Forsrh.: Mjög margt.) Ekki nokkurn hlut, (Forsrh.: Mjög margt.) frú forseti, ekki nokkurn hlut. Svona geta hlutirnir snúist í höndum hæstv. forsætisráðherra, sjálfri guðmóður þingsins og þeirri baráttumanneskju fyrir [Hlátur í þingsal.] þeim aðilum sem minna mega sín. Svona snúast málin í höndunum. En ég skora á hæstv. forsætisráðherra að láta nú til sín taka til að vinna með heimilum og fjölskyldum.

Hæstv. velferðarráðherra gagnrýndi 90%-leiðina sem var farin á sínum tíma. Ekki ætla ég að verja hana, en þessi ríkisstjórn leggur til ásamt bönkunum 110% skuldsetningu. Það vita allir hvernig það endar. Ætlar ríkisstjórnin að taka sig saman í andlitinu og fara að sinna því sem máli skiptir, fjölskyldunum og heimilunum í landinu, og byggja upp atvinnu, eða ætlar hún að láta allt saman renna út í sandinn?