139. löggjafarþing — 163. fundur,  14. sept. 2011.

afskriftir banka og fjármálastofnana á skuldum heimilanna.

[16:12]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (Hr):

Forseti. Á hverjum degi fæ ég að heyra um veruleika þeirra sem ná ekki utan um skuldir, eiga ekki fyrir mat, eiga ekki fyrir lyfjunum sínum, þurfa jafnvel að láta svæfa gæludýrin sín af því þeir hafa ekki efni á að gefa þeim að borða eða veita þeim nægilega umhirðu. (VigH: Hvað með börnin?) Fólk þarf sem betur fer ekki að svæfa börnin hinum langa dauða, hv. þm. Vigdís Hauksdóttir.

Ég heyri á hverjum degi mjög erfiðar sögur. Mig langar að nota tækifærið fyrst ég er hérna til að þakka fólki kærlega fyrir að hafa hugrekki til þess að senda þingmönnum bréf. Ég heyri allt of oft að þingmenn svari ekki því fólki, ekki nokkur maður, nema örfáir þingmenn Hreyfingarinnar og (Gripið fram í.) einstöku sinnum aðrir. (Gripið fram í.) Einstöku sinnum aðrir. Við getum sýnt ykkur öll bréfin sem við fáum þar sem fólk kvartar yfir því að þingmenn svari ekki. Það eru einstaka þingmenn hérna inni sem svara, svo sem hv. þm. Lilja Mósesdóttir og hv. þm. Þráinn Bertelsson, en mjög oft eru það heilu flokkarnir sem svara ekki. Það er bara þannig, en ég ætla ekki að fara að eyða tíma í þetta.

Mig langar að benda á því að ég sá svo skýra mynd fyrir mér þegar hv. þm. Þráinn Bertelsson talaði um blóðsugubankana, að ég skil ekki hvernig hægt er fyrir þessa ágætu ríkisstjórn að sitja undir því að vera norræn velferðarstjórn en leyfa á sama tíma bönkunum að vera blóðsugur á heimilum landsins, sjúga til sín allar eigur heimilanna og bjóða þeim svo upp á að leigja þær. Þetta er alveg ótrúlegt. Því miður eru Írar að taka upp sama kerfi og við. Við skulum sannarlega reyna að vera ekki svo slæm fyrirmynd að aðrar þjóðir taki upp svona aðferðir. Ég skora á ríkisstjórnina að stoppa þetta og sýna bönkunum klærnar. Hún hefur alveg dug og hugrekki til að gera það. Ég skora á hæstv. ríkisstjórn að fara að standa meira með heimilunum í landinu.