139. löggjafarþing — 163. fundur,  14. sept. 2011.

afskriftir banka og fjármálastofnana á skuldum heimilanna.

[16:17]
Horfa

velferðarráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég þakka þessa umræðu og margt hefur komið fram þó að tíminn sé býsna naumur.

Ég get tekið undir það að í ákvarðanatöku og umræðu vantar oft upplýsingar. Frumvarp liggur fyrir sem er óafgreitt en nefndin hefur ekki séð sér fært að afgreiða það.

Ég vil líka taka undir með hv. þingmanni að ástandið er að mörgu leyti alveg ótrúlegt. Því miður eru mörg fórnardýr þess ástands sem við höfum verið að ganga í gegnum. Það er fátækt fólk á Íslandi og fólk sem er í miklum vandræðum. Það er auðvitað verkefni okkar allra og þess sem hér stendur að reyna að gera eins vel og hægt er til að liðsinna fólki út úr þeim vanda.

Ég tek heils hugar undir með málshefjanda. Það er einmitt í þessari lotu núna sem á auðvitað að hreinsa út eins mikið og hægt er þannig að skuldir hangi ekki á fólki umfram það sem eðlilegt má teljast.

Það er ágreiningur um hversu mikið var fært á milli. Ég hef heyrt töluna 70% hvað varðar íbúðalán. Hér eru tölur nefndar allt að 50%. Þetta er hluti af því sem þyrfti kannski að fá skýrar fram. Bankarnir hafa sagt 72% varðandi íbúðalán, enda hafa þau verið hvað öflugustu lánin.

Það er svolítið merkilegt í umræðunni þegar maður skoðar tölur, að ég er núna að senda svar til hv. þm. Birgittu Jónsdóttur um hvað húsnæði kostar, þ.e. hvað kostar að búa, hvað eyðum við stórum hluta af ráðstöfunartekjum í húsnæði. Þar kemur í ljós að árið 2010 er Ísland ekki með nema 21% af ráðstöfunartekjum í húsnæðiskostnað, sem er annað lægsta á Norðurlöndunum. Þetta er reiknað út samkvæmt samræmdri aðferð. Það eru ýmsar svona misvísandi upplýsingar eins og ég sagði áðan. Það er fullt af fólki skuldlaust og það er fullt af fólki í miklum vandræðum.

Það er okkar að finna út hvernig við getum komist þannig frá málinu að við leysum það þeim til hagsbóta sem á því þurfa að halda. Það munum við að sjálfsögðu gera áfram. Málinu lýkur aldrei, hv. þm. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, einfaldlega vegna þess að við verðum alltaf að bregðast við og hjálpa því fólki sem á í erfiðleikum á hverjum tíma.