139. löggjafarþing — 163. fundur,  14. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[16:20]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Við ræðum hér stjórnarráðsmálið sem við höfum rætt mjög lengi í þinginu og ræddum meira að segja áðan undir atkvæðagreiðslum hvort við ættum að funda áfram um það í kvöld. Ég sat hjá við þá atkvæðagreiðslu vegna þess að ég hef vissan skilning á því að kvöldfundi þurfi að halda um málið, sérstaklega þegar menn þurfa að tala mikið í því. Menn hafa talað svo mikið í því að ég tel og ég held að allir telji að um málþóf sé að ræða. Ég tek fram að þetta er fyrsta ræðan mín í málinu að þessu sinni. Ég hef þó tekið til máls um mál af sambærilegum toga sem var rætt á síðasta löggjafarþingi, 138. löggjafarþingi, fyrir ári. Þá vorum við í júní 2010 að breyta Stjórnarráðinu og sameina ráðuneyti, og umræðan þá var að mörgu leyti mjög lík umræðunni eins og hún er núna. Ég tel að búið sé að koma flestum sjónarmiðum til þingheims og þjóðarinnar úr þessum ræðustóli. Ég ætla eigi að síður að nýta rétt minn til að halda að minnsta kosti eina ræðu um málið, sérstaklega af því að ég hef kannski nokkra sérstöðu í málinu og er ekki algjörlega sammála mörgum félögum mínum í stjórnarandstöðunni um það. Ég tel að þetta sé gott mál í heildina litið og vil gjarnan greiða fyrir því að við fáum að greiða atkvæði um það sem fyrst. Þess vegna hef ég, ásamt hv. þm. Eygló Harðardóttur, Árna Þór Sigurðssyni og Margréti Tryggvadóttur, lagt fram breytingartillögu til að reyna að liðka fyrir því að málið klárist af því að ég held að það sé framfaramál.

Ég vil líka sýna sanngirni í umræðunni, vera réttlát og sýna hógværð, a.m.k. eins mikla hógværð og mér er unnt. Það er allt of mikið um stórar yfirlýsingar í ræðustól Alþingis sem ég held að við ættum að draga úr, þeirri hörkuumræðu sem einkennir þingið svolítið á þessum dögum og hefur kannski gert að einhverju leyti eftir hrun. Sumt af því er skiljanlegt, annað er algjörlega óskiljanlegt.

Mér finnst líka svolítið merkilegt, og ég ætla bara að koma strax inn á það áður en ég rifja aðeins upp forsöguna og stefnu Framsóknarflokksins í málinu, að inn í þetta stjórnarráðsmál, þar sem við ræðum hvernig eigi að skipa Stjórnarráðið almennt, sé reynt að draga, með frekar óvægnum hætti að mínu mati, umræðuna um aðildarumsókn okkar að ESB. Ég tel að þetta sé hálfgerð taktísk umræða þar sem sérstaklega þeir sem eru andstæðingar þess að við skoðum hvort við náum einhverjum góðum samningum við ESB, nota tilefnið eins og svo mörg önnur til að líta á málið algjörlega út frá þeim hóli og vega og meta nánast hverja einustu grein málsins út frá því hvort hún tengist ESB-aðildarumsókninni. Ég tel að það tengist henni alls ekki. Þetta er bara gott mál, verið er að reyna að skipa málum með nýjum hætti í Stjórnarráðinu og það tengist ekkert ESB-aðildarumsókninni. Ég tel að þeir sem halda öðru fram séu haldnir — það er til gott orð yfir það á íslensku — vænisýki eða paranoju, þeir sjái bara skrattann á veggnum. Það er að minnsta kosti upplifun mín. Mér finnst sú umræða eiginlega ekki eiga mjög mikið heima í þessu máli. Og menn draga það allt of mikið inn í umræðu, sem hefur einkennt kannski sérstaklega Vinstri græna, um stöðu hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra Jóns Bjarnasonar. Ég tel að málið komi því bara ekkert við.

Ég vil halda stefnu Framsóknarflokksins aðeins halda til haga, vegna þess að mér finnst eðlilegt að gera það sem fulltrúi Framsóknarflokksins á þingi, ég er hluti af þeirri stefnumótun, hef samþykkt stefnuna á flokksþingum og lít ekki svo á að það beri að víkja frá henni í grundvallaratriðum þó að við séum í stjórnarandstöðu. Ég tel að flokkar eigi nokkurn veginn að halda sig við sína stefnu þótt þeir fari í stjórnarandstöðu um sinn. Ég hef hins vegar vissan skilning á því að aðrir hv. þingmenn hafi kannski ekki eins mikið fyrir því að halda stefnunni til haga þar sem þeir eru margir hverjir mjög nýir í okkar hópi og þurfa þá kannski ekki að velta mikið fyrir sér þeirri vinnu sem flokkurinn og við höfum lagt í varðandi stjórnarráðsmálin; líta á það sem hálfgert erfðagóss sem liggur þarna. Ég lít hins vegar ekki svo á, ég er hluti af stefnumótuninni og það eru reyndar fleiri þingmenn. Ég sé að hér er hv. þm. Eygló Harðardóttir í salnum, þingmaður Framsóknarflokksins, en hún sat einmitt í nefnd flokksins sem skoðaði sérstaklega skiptingu Stjórnarráðsins og umbætur á Stjórnarráðinu og lagði síðan ákveðnar tillögur til flokksþingsins enda bað flokksþingið árið 2005 um það. Flokksþing 2007 og 2009, flokksþingið 2009 var nú eftir bankahrunið, samþykktu bæði þá stefnumótun sem kom frá nefndinni sem hv. þm. Eygló Harðardóttir sat í.

Það er því talsverð forsaga í Framsóknarflokknum um breytingar á Stjórnarráðinu. Breytingarnar sem við hefðum viljað gera eru meira og minna í anda þess sem felst í frumvarpinu núna. Það er ekki stór munur þar á, það er einhver munur en ekki stór. Megingagnrýni stjórnarandstöðunnar í þessu máli gengur þvert á það sem framsóknarmenn hafa faktískt samþykkt í stefnumótun sinni varðandi Stjórnarráðið á flokksþingum sínum. Ég ætla að fara aðeins yfir það.

Á flokksþingi 2005 var samþykkt að fara í þessa málefnavinnu og skipaður var sérstakur málefnahópur, svokölluð stjórnarráðsnefnd, til þess. Fyrsti formaður var Ingibjörg Ólöf Vilhjálmsdóttir lögfræðingur, hún fór svo til annarra starfa í útlöndum og þá tók við Gísli Tryggvason lögfræðingur og reyndar sérfræðingur, tel ég mig geta sagt, í skipan Stjórnarráðsins, af því að þegar hann var í laganámi í háskólanum vann hann nýsköpunarsjóðsverkefni þar sem uppbygging Stjórnarráðsins var skoðuð sérstaklega. Hann leiddi nefndina og hafði ákveðna sérþekkingu á skipan Stjórnarráðsins.

Í þessari nefnd voru líka tveir fulltrúar frá hverju kjördæmi og svo fulltrúi flokksins í stjórnarskrárnefnd forsætisráðherra. Þetta var því ákveðinn hópur innan flokksins sem fór yfir stjórnarráðsmálin, hvernig ætti að skipa Stjórnarráðinu upp á nýtt og gera úrbætur.

Á sama tíma og nefndin skoðaði þetta og í aðdragandanum að því unnu ungir framsóknarmenn líka í þessu, Samband ungra framsóknarmanna. Samband ungra framsóknarmanna gerði skýrslu sem heitir Umbætur á Stjórnarráðinu árið 2007. Þá var formaður SUF, Sambands ungra framsóknarmanna, Dagný Jónsdóttir, hv. fyrrverandi þingmaður. Það er mjög merkilegt að skoða niðurstöðuna í skýrslu unga fólksins í flokknum og bera hana saman við niðurstöðu stjórnarráðsnefndar flokksins. Í skýrslu unga fólksins í Framsóknarflokknum kom fram, og ég ætla að fá að vitna í það beint, virðulegur forseti. Tilvitnun hefst:

„Í dag [er ráðuneytum] sem fara með atvinnumál skipt eftir einstökum atvinnuvegum. Þannig fer sjávarútvegsráðuneytið með málefni útgerðar og fiskvinnslu, landbúnaðarráðuneyti fer með málefni landbúnaðarins, samgönguráðuneytið fer með málefni ferðaþjónustu og samgöngufyrirtækja, viðskiptaráðuneytið með málefni fjármagnsmarkaðarins og iðnaðarráðuneytið með málefni iðnaðar og orkugeirans.“

Hér er farið yfir hvernig ráðuneytin voru á þessum tíma. Síðan segir seinna í skýrslu unga fólksins í Framsókn, með leyfi virðulegs forseta:

„Þessi skipan er barns síns tíma þegar það tíðkaðist að ríkisvaldið gripi til sértækra aðgerða ríkisvaldsins til að vernda tilteknar atvinnugreinar. Þessi skipan á hins vegar illa við þegar leitast er við að móta almenna atvinnustefnu þar sem ekki á að hygla hagsmunum tiltekinnar atvinnugreinar framar annarri.“

Unga fólkið í Framsóknarflokknum segir ráðuneyti atvinnuveganna vera börn síns tíma og það beri að sameina þau í eitt atvinnuvegaráðuneyti og það hefur faktískt verið stefna Framsóknarflokksins hin seinni ár. Hins vegar hef ég vissan skilning á því að hagsmunasamtök þessara atvinnugreina, sjávarútvegsins, landbúnaðarins, iðnaðarins o.s.frv., eru í mjög miklum samskiptum við ráðuneytin og hafa byggt upp ákveðin tengsl þar inn og stundað þar ákveðinn lobbíisma, ef svo má kalla, hagsmunagæslu. Það er bara ósköp eðlilegt og ég skil alveg að þau óttist allar breytingar. Maður veit hvað maður hefur, maður veit ekki hvað maður fær. En það er ekki þar með sagt að ekki eigi að gera breytingar. Ég tel að rétt sé að gera þessar breytingar, að auka sveigjanleikann og reyna að koma upp atvinnuvegaráðuneyti, þrátt fyrir að hagsmunaaðilarnir mæli ekki með því. Ég held að við höfum alveg nógu sterk bein í þinginu til að sjá að það sé heppilegri leið, ég tel það að minnsta kosti, en sú uppbygging sem nú ríkir.

Hins vegar eru margir hv. þingmenn mjög tengdir þessum hagsmunasamtökum eins og eðlilegt er líka og endurspegla þau viðhorf hér. Það verður bara að hafa það. Það er því alveg skiljanlegt af hverju margir hv. þingmenn tala á þeim nótum að alls ekki megi hrófla neitt við þessu. En ég tel að það sé betra að breyta í takt við nýjan tíma og sameina þessi ráðuneyti sem eru öll frekar lítil. Þó að þetta séu mikilvægar atvinnugreinar eru ráðuneytin frekar lítil og veikburða og það ber að sameina þau í stærra og sterkara atvinnuvegaráðuneyti.

Stjórnarráðsnefnd framsóknarmanna sem vann á sínum tíma skilaði af sér niðurstöðu sem við samþykktum 2007 og 2009 á flokksþingum. Það var sérstaklega tilgreint í skýrslu hennar að mikil samstaða hefði náðst um niðurstöðuna í nefndinni. Það er alveg skýrt tilgreint í skýrslunni. Þar voru menn ekkert að koma með meirihlutaálit og minnihlutaálit. Það voru bara allir sammála í nefndinni, tveir úr hverju kjördæmi og þeir aðilar sem ég nefndi áðan.

Og hverjar eru svo niðurstöður nefndarinnar? Það er athyglisvert að lesa það upp og ég ætla að fá að vitna beint í textann, með leyfi virðulegs forseta:

„Meginatriði í tillögum nefndarinnar eru eftirfarandi:

Áréttað er að ríkisstjórn skiptir sjálf með sér verkum en ekki löggjafinn.

Grunneiningar Stjórnarráðsins verði um 60 skrifstofur.

Mál, sem eðli máls samkvæmt heyra saman, falla undir sömu skrifstofu.

Unnt verður að breyta samsetningu, fjölda og heitum ráðuneyta.

Samsetning, fjöldi og heiti ráðuneyta eru ekki bundin í lögum.

Illsamrýmanleg mál eiga ekki að heyra undir sama ráðherra.

Forsætisráðherra fer að jafnaði ekki með önnur málefni en æðstu yfirstjórn.

Áréttuð er heimild til þess að skipa ráðherra án ráðuneytis.

Bætt er við heimild til þess að skipa aðstoðarutanríkisráðherra.

Ráðherrar sitja ekki á þingi á meðan þeir gegna ráðherraembætti.

Ekki er dregið úr sérþekkingu embættismannakerfisins og stöðugleika.

Pólitísk forusta í Stjórnarráðinu gagnvart embættismannakerfi er stórefld.“

Þetta eru í heild meginniðurstöður stjórnarráðsnefndar Framsóknarflokksins sem flokksþing 2007 og 2009 tóku undir. Þetta er stefnan, ekki bara að mínu mati, þetta stendur þarna, og ég hef tilhneigingu til að vilja halda henni á lofti, sérstaklega vegna umræðunnar sem hér hefur verið. Þótt framsóknarmenn séu núna í stjórnarandstöðu tel ég að við eigum að líta til þeirrar stefnu sem flokksmenn og flokksþing hefur mótað.

Ég vil líka koma því á framfæri að þetta er gert með sama hætti og við höfum reynt hér, á Norðurlöndum. Það er alveg rétt að Ísland hefur ákveðna sérstöðu, við erum 300 þús. manns og getum kannski ekkert hagað okkur eins og milljónaþjóðir, en ég held að það eigi ekki við í þessu sambandi. Ég tel að við getum alveg horft til annarra Norðurlandaþjóða varðandi uppsetningu og skipan mála í Stjórnarráðinu, þar sé sérstaðan lítil sem engin hjá okkur, og við ættum því að líta til þeirra. Þar er það þannig, eins og þetta frumvarp gerir ráð fyrir, að skipan ráðuneyta (Gripið fram í.) og málaflokka innan þeirra er á valdi framkvæmdarvaldsins, ekki þingsins.

Þrátt fyrir allt þetta er ég tilbúin að koma með málamiðlunartillögu og hef lagt hana fram ásamt fleiri þingmönnum og ég ætla að lýsa henni betur hér á eftir.

Ég held líka, virðulegur forseti, að núna eftir kreppuna þegar við þurfum að sannfæra þjóðina og færa rök fyrir því að mikið aðhald þurfi að sýna í rekstri og spara, og það er viðkvæmt, sé óeðlilegt og óskynsamlegt að topparnir byrji ekki á sjálfum sér. Er ekki eðlilegt að sameina ráðuneyti og reyna að hagræða þar og fá meira og betra fyrir fjármagnið frekar en að hagræða bara í undirstofnunum og í þjónustunni sem við veitum? Ég held að það sé mjög eðlilegt að Stjórnarráðið taki líka þátt í því að hagræða. Ég held að þetta mál feli í sér hagræðingu, við fáum meira fyrir fjármagnið, en ég held líka að það sé faglega sterkt, ég held að við fáum sterkara Stjórnarráð út úr þessu, sterkari ráðuneyti, ef við aukum sveigjanleikann þannig að ríkisstjórn hvers tíma geti, eftir því sem hlutirnir skipast, fært málaflokka á milli og sveigt þá meira að þeim atvinnuháttum og þeim málaflokkum sem taka þarf á hverju sinni. Það breytist að sjálfsögðu með tímanum. Ég tel að við eigum að líta til Norðurlandanna og læra svolítið af reynslu þeirra og breyta lögum hér og hafa þetta með svipuðum hætti og þar, sem sagt opna þetta upp miðað við það sem nú er.

Þetta var stefna okkar framsóknarmanna í hnotskurn. Ég hef hlustað hér á ræður þingmanna og heyrt þá gagnrýni sem komið hefur fram og hún felst aðallega í því að frumvarpið sé eitthvert hrikalegt valdaframsal til hæstv. forsætisráðherra á kostnað þingsins. Ég tel að þetta vald eigi að vera hjá forsætisráðherra og sé ekki þá miklu hættu sem gæti verið falin í því. Einhver verður að hafa þetta vald og ég tel að vel fari á því að það sé í höndum forsætisráðherra og þeirrar ríkisstjórnar sem á hverjum tíma þarf að skipuleggja Stjórnarráðið. Menn hafa líka fært rök fyrir því að það væri hræðilegt ef hæstv. forsætisráðherra hefði þetta vald, ef einhver hæstv. ráðherra væri óþekkur og vildi ekki gera hitt og þetta sem til stæði að gera, og hæstv. forsætisráðherra gæti blandað sér í það. En ég vil líka líta á hlutina frá hinum endanum: Hvað ef einmitt sú staða er uppi að einhver óþekkur hæstv. ráðherra vill ekki gera hlutina? Á sá hæstv. ráðherra að ráða ferðinni? Er það eðlilegt? Ég held að það væri miklu eðlilegra að hæstv. forsætisráðherra réði ferðinni og hefði valdið, frekar en einstakur hæstv. ráðherra. Það væri miklu eðlilegra. Þetta vald þarf að liggja einhvers staðar, maður verður bara að velja hvar.

En gagnrýnin hefur verið sú að framkvæmdarvaldið sé að taka sér þarna eitthvert gríðarlegt vald. Ég vil reyna að skoða hvort hægt sé að koma til móts við þá gagnrýni þó að það sé kannski ekkert endilega hlutverk mitt þar sem ég sit í stjórnarandstöðu. Það væri hefðbundið að vera bara hér í mikilli andstöðu en ég tel að við eigum að reyna að sýna sanngirni og leita lausna. Þess vegna er það mér mikil ánægja að vera meðflutningsmaður á breytingartillögu í þessu máli sem hv. þm. Eygló Harðardóttir er 1. flutningsmaður að, enda lausnamiðuð manneskja. Það er vöntun á slíku fólki í þinginu í augnablikinu, að mínu mati. Þetta eru þung orð.

Hv. þm. Eygló Harðardóttir er 1. flutningsmaður breytingartillögunnar og meðflutningsmenn hv. þm. Árni Þór Sigurðsson, Margrét Tryggvadóttir og sú er hér stendur. Ég ætla að fá, með leyfi virðulegs forseta, að tipla á tillögugreininni en þar stendur, þetta er mjög lítill texti:

„Í stað 3. málsl. efnismálsgreinar 2. tölul. komi tveir nýir málsliðir, svohljóðandi: Fjölda ráðuneyta, heiti þeirra og stjórnarmálefni hvers ráðuneytis skal ákveða með forsetaúrskurði, sbr. 15. gr. stjórnarskrárinnar, samkvæmt tillögu forsætisráðherra. Tillagan skal lögð fyrir Alþingi í formi þingsályktunartillögu sem rædd skal og afgreidd við eina umræðu eftir reglum um síðari umræðu, sbr. ákvæði þingskapa Alþingis, áður en forsetaúrskurður er gefinn út.“

Þarna er lagt til að eftir að hæstv. forsætisráðherra hefur haft forgöngu um og sameinast með stjórnarflokkum sínum um nýtt stjórnarráð, búið er að velja ráðuneyti, hver þau eru og hvað þau heita og hvaða málaflokkar heyra þar undir, þá eigi í staðinn fyrir að keyra allt áfram eftir þessari nýju skipan að færa það til þingsins. Þingið á sem sagt að afgreiða þá tillögu með einni umræðu sem er eins og vantraustsumræða þar sem menn gera engar breytingar, það er bara „take it or leave it“, eða sem sagt, taktu það allt eða felldu það.

Ég tel að með þessari tillögu sé komið til móts við megingagnrýnina sem sett hefur verið fram í þessu máli. Það er ekki komið til móts við allt en það er alveg örugglega komið til móts við megingagnrýnina. Þingið kemur að málinu og getur fellt þá skipan sem hæstv. forsætisráðherra þess tíma leggur til. Það er hægt að fella þetta, en það er líka hægt að samþykkja þannig að þarna er þingið ekki búið að afsala sér neinu valdi, ef menn telja að þetta sé mikið valdaafsal. Ég tel reyndar svo ekki vera og tel að hæstv. forsætisráðherra ætti að hafa þetta vald, en fyrst menn telja að svo eigi ekki að vera er þetta leið út úr því. Þá er það alveg skýrt að Alþingi Íslendinga þarf að blessa skipan Stjórnarráðsins, bæði fjölda ráðuneyta, heiti þeirra og málaflokkana undir þeim. Það er þá ekki hægt að færa á milli, menn hafa verið hræddir við það, að vippa Íbúðalánasjóði á milli ráðherra, ráðuneyta o.s.frv. Þarna er komið til móts við þessa megingagnrýni.

Og ég verð að segja að það gladdi mig verulega í gær, þegar þingmenn sáu tillöguna, að fyrstu viðbrögð voru að minnsta kosti frekar góð. Ég vil nefna alveg sérstaklega eitt nafn, og það er hv. þm. Ásbjörn Óttarsson sem tók undir þessa tillögu, reyndar með þeim fyrirvara að hann væri nýbúinn að sjá hana og ekki búinn að stúdera hana mjög náið. Hann sagði að hún væri í rétta átt og tók jákvætt í hana. Það var ekki hægt að skilja orð hv. þm. Ásbjörns Óttarssonar öðruvísi og reyndar tók líka hv. þm. Mörður Árnason jákvætt í tillöguna. Það vegur mjög þungt í mínum huga þegar fulltrúi úr stjórnarandstöðunni tekur jákvætt til máls um svona tillögu sem er að mínu mati lausnamiðuð.

Virðulegur forseti. Ég vil líka koma inn á annað atriði en svolítið hefur verið rætt um styrk ráðuneyta, hvort þau séu sterk eða veik. Einhverjir hv. þingmenn hafa talað um að ráðuneytin séu alveg nógu sterk og það væri nær að styrkja þingið o.s.frv. Það er rétt að styrkja þarf þingið en það er líka algjörlega nauðsynlegt að styrkja ráðuneytin. Annað útilokar ekki hitt.

Ráðuneytin eru allt of veik að mínu mati. Þau þarf að styrkja og ef það á að vera á kostnað einhvers, ef við eigum ekki meira fjármagn til að nota í það, tel ég að það verði að taka þann styrk úr undirstofnunum. Ráðuneytin eru allt of veik hlutfallslega miðað við undirstofnanir, og faglega mjög veik. Ég vil fá að lesa upp tilvitnun í því sambandi sem sýnir þetta algjörlega í hnotskurn, að mínu mati. Það er svar hv. þm. Björgvins G. Sigurðssonar til þingmannanefndarinnar sem fjallaði um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis vegna bankahrunsins. Þingmannanefndin gaf hæstv. ráðherrum, bæði þeim sem sátu fyrir hrun og í hruninu, kost á að koma með athugasemdir við skýrslu rannsóknarnefndarinnar. Flestir nýttu sér það tækifæri, þar á meðal hv. þm. Björgvin G. Sigurðsson. Hann lýsir í bréfi sínu, dagsettu á Selfossi 7. júní 2010, svolítið aðkomunni að ráðuneytinu þegar hann varð viðskiptaráðherra og lýsir því hvað ráðuneytið var ótrúlega veikt. Ég ætla að lesa upp úr þessum kafla þar sem sést hvað þetta ráðuneyti var veikt og sýnir hversu nauðsynlegt það er að styrkja ráðuneytin, hvað þá í ljósi reynslunnar eins og varðandi þetta ráðuneyti. Hér hefst tilvitnunin, með leyfi virðulegs forseta:

„Hinn 27. maí 2007 var starfsemi viðskiptaráðuneytisins skilin frá starfsemi iðnaðarráðuneytis og ég tók við embætti viðskiptaráðherra. Þá hóf starfsfólk sameinaðs iðnaðar- og viðskiptaráðuneytis störf í nýju ráðuneytunum tveimur. Rétt er að leggja sérstaka áherslu á að í upphafi ferils míns í hinu aðgreinda viðskiptaráðuneyti störfuðu þar aðeins fimm skrifstofustjórar og tveir sérfræðingar. Þeim var að sönnu fjölgað, en í ársbyrjun 2008 voru þeir þó ekki nema 14 talsins.

Inn í þetta krítíska ár var mér falið að leggja með starfslið sem var að stórum hluta nýtt, og reynslan innan ráðuneytisins speglast kannski best í þeirri staðreynd að í upphafi ferðar hafði sá sérfræðingur, sem lengsta starfsreynslu hafði, einungis starfað í sex mánuði. Efalítið hafði þessi skortur á reynslu innan ráðuneytisins, sem ég gat ekki við ráðið en var þó á mína ábyrgð, áhrif á framvinduna.

Hinu nýja ráðuneyti var falið að takast á við fjölþætt verkefni. Samkvæmt reglugerð um Stjórnarráð Íslands frá 31. desember 2007 (117/2007) fór viðskiptaráðuneytið m.a. með mál sem vörðuðu verslun og viðskipti með vöru og þjónustu, fjármálamarkað, vátryggingar og vátryggingastarfsemi, vexti og verðtryggingu, fjárfestingar erlendra aðila, gjaldeyri, samkeppnismál og óréttmæta viðskiptahætti, neytendavernd, hlutafélög, einkahlutafélög, Endurreisnar- og þróunarbanka Evrópu, fasteignakaup og sölu fasteigna, fyrirtækja og skipa og hugverkaréttindi á sviði iðnaðar, svo að nokkuð sé talið.

Þá heyrðu undir ráðuneytið fimm stofnanir, Samkeppniseftirlitið, Fjármálaeftirlitið, Einkaleyfastofa, talsmaður neytenda og Neytendastofa.

Það er því ljóst að verkefnasvið þessa minnsta ráðuneytis Stjórnarráðsins var mjög víðtækt. Staðreynd er, að ráðuneytinu var ætlað að sinna mjög fjölbreyttum verkefnum með fáum starfsmönnum, sem fæstir höfðu mikla reynslu af málaflokknum, og innan þröngra fjárheimilda.“

Þetta sýnir, virðulegur forseti, í hnotskurn hvað ráðuneytin eru veik, ótrúlega veik, sérstaklega þegar við horfum á þau í samhengi við undirstofnanir. Þau eru mjög mannfá og því miður er í sumum þeirra, eins og þarna á þessum tíma, mjög lítil reynsla. Árið 2007 eru fimm skrifstofustjórar og tveir sérfræðingar í þessu ráðuneyti. Reyndar var einn sameiginlegur ritari, ég spurði hv. þm. Björgvin Sigurðsson aðeins út í þessar tölur, hvort ekkert stoðkerfi hefði verið í kringum þetta. Ja, það var sameiginlegur ritari með iðnaðarráðuneytinu í sjö, átta mánuði, síðan var ritari í fullu starfi. Þetta er bara ótrúlega veikt. Sá sérfræðingur sem hafði mesta starfsreynslu í upphafi 2008 þegar bankahrunið var yfirvofandi hafði starfsreynslu upp á sex mánuði. Ég veit ekki hvað maður á að nota sterk orð yfir þetta, ég ætla ekki að velja neitt. Þetta sýnir bara hvað þetta er ótrúlega veikt.

Sú er hér stendur hefur nokkra reynslu úr tveimur öðrum ráðuneytum. Gott fólk sem vinnur þar og gerir sitt besta en ráðuneytin eru allt of veik miðað við málin sem þar þarf að afgreiða, t.d. strúktúrbreytingar, ég ætla að nefna heilbrigðisráðuneytið, það þarf að gera ofboðslegar strúktúrbreytingar. Þær þarf að vinna fyrir þingið, síðan þarf þingið að hafa kjark til að taka á þeim o.s.frv. en öll sú mikla vinna sem fer í lagabreytingar hefst í ráðuneytunum. Þau þarf virkilega að stórefla. Ég vona svo að jafnhliða breytingunum á Stjórnarráðinu sem við fáum vonandi að greiða atkvæði um bráðum, af því að við erum að mínu mati búin að ræða málið alveg nóg til þess, að farið verði í að styrkja ráðuneytin.

Mikil umræða var hér um málþóf og ég vil að lokum, ég ætla ekki að nýta allan tíma minn í þessari ræðu, nýta nokkrar mínútur til að segja að málþóf hefur margoft verið stundað hér í þinginu af stjórnarandstöðu hvers tíma. Það er hvergi stundað á Norðurlöndunum, og reyndar í mjög fáum löndum í heiminum. Það hófst á tímum Katós, ef ég man rétt, þá mátti ekki ræða mál í þinginu og taka til afgreiðslu í myrkri og þá var reynt að þæfa málið til myrkurs og síðan var bara allt frosið. Þannig hófst málþóf á sínum tíma. Við höfum stundað þetta hér og minni hluti, þ.e. stjórnarandstaða hvers tíma, hefur litið á málþóf sem mikið valdatæki og hefur ekki viljað sleppa takinu á því nema fá einhver völd í staðinn. Ég held að þetta sé talsverður misskilningur, ég held að þetta sé ekki gott valdatæki. Og ég held að við eigum að láta af málþófi og koma því þannig fyrir að hægt sé að skipuleggja störf þingsins, ekkert endilega bara gagnvart málþófi heldur störfum þingsins almennt, og að hægt sé að skipuleggja hvenær mál er tekið til umræðu og um hvaða leyti því lýkur. Hver flokkur fær bara X margar mínútur til að ræða mál og svo þarf sá flokkur að deila þeim tíma niður á þingmenn sína. Þetta er gert annars staðar á Norðurlöndunum, þar komast ekkert allir þingmenn að í hverju einasta máli. Halda menn það? Nei, það eru talsmenn í málum. Þar eru reyndar miklu fleiri þingmenn en þar vita menn hvenær umræðan hefst og hvenær henni lýkur.

Að mínu mati eigum við líka að gera þetta svona hér. Forseti á að koma með tillögu eftir að þingnefndir hafa lagt til hvaða mál það eru sem þurfa mikla umræðu til að fá góða umfjöllun. Undanskilja ætti fjárlögin og stjórnarskrármál en það ætti að vera hægt að haga ræðutíma þannig að mál verði fullrædd án þess að hér sé farið algjörlega úr hófi með ræðurnar.

Það er mjög leiðigjarnt fyrir bæði okkur sem sitjum í þinginu og fyrir okkar borgara og kjósendur að þurfa að horfa upp á málþóf. Hér í gærkvöldi sagði einmitt einn stjórnarandstæðingur sem hefur verið í þessu málþófi, og nýtir sér þann rétt sem hann hefur í dag til málþófs, að þetta væri hundleiðinlegt, (Gripið fram í.) en þetta væri til að skapa samningsstöðu. Og það er algjörlega rétt hjá hv. þingmanni sem er í stjórnarandstöðunni, þetta er til að skapa samningsstöðu. Og núna höfum við séð samningsstöðuna, menn eru að nýta sér hana til að reyna að pikka einhver mál inn og út af dagskrá eða breyta þeim. Þannig gengur þetta fyrir sig en við eigum að taka af skarið með þetta. Ég veit að ég tala fyrir daufum eyrum þingmanna, því miður, en ég vonast til að fleiri og fleiri þingmenn átti sig á því með tímanum að það er ekki leiðin inn í nútímann fyrir störf þingsins á Íslandi að skipa málum þannig að menn geti staðið í málþófi alveg endalaust. Það er ekki leiðin, það er engum til gagns.

Þetta eru mín viðhorf, virðulegur forseti. Í heildina er þetta gott mál sem við ræðum, horfir til framfara, er í takt við meginstefnu Framsóknarflokksins og ég tel því að það þurfi ekki að gera mjög miklar breytingar á því úr því sem komið er. Ég er þó flutningsmaður að breytingartillögu sem gengur talsvert skemur en ég tel að væri réttast. Það geri ég í þeirri von að hægt sé að sameina þingið um að afgreiða þetta mál. Tillagan sem forsætisráðherra leggur fram um skipan Stjórnarráðsins sé þá tekin inn í þingið, og þingið segi þá já eða nei. Þá fer ekkert vald héðan úr þinginu.