139. löggjafarþing — 163. fundur,  14. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[16:56]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka fyrir hólið frá hæstv. forsætisráðherra þó að ég fái smábakþanka líka, af því að kannski eru ekki allir jafnánægðir með það sem sú er hér stendur hefur lagt til málanna í þessu máli. En það er rétt, ég hef endurspeglað hér stefnu Framsóknarflokksins eins og hún var mótuð á sínum tíma og ekki hefur verið samþykkt nein ný stefna í þessu máli. Ég skil nýja þingmenn okkar sem koma nýir að þessu máli og hafa önnur viðhorf en þetta er stefnan og ég hef verið hluti af þeim hópi sem hefur mótað hana og samþykkt hana á flokksþingum okkar.

Ég tel að við séum á þeim stað í samfélagi okkar að við eigum að fara upp úr skotgröfunum. Ég vil ekki vera í skotgröfunum, ég vil sýna sanngirni og vera með réttlátan málflutning. Þess vegna ætla ég að halda því til haga sem ég tel réttast. Ég tel líka að þetta sé mjög hættuleg þróun sem hefur orðið í þinginu á Íslandi ekki bara seinni ár heldur síðustu áratugi þar sem menn stunda málþóf og koma öllu í þröng eins og hér var sagt og formenn eiga svo að semja um þinglok einhvers staðar úti í horni, höggva á hnútinn. Ég tel það vera mikið valdaframsal til formanna. Það er hálfgert foringjaræði falið í því, ekki satt? Þess vegna tala ég mikið fyrir því líka að við hættum svona málþófi og reynum að koma hér á reglum sem skipuleggja ræðutíma okkar frá upphafi til enda á ákveðnum tíma.

Ég vil líka taka undir varðandi þessa tillögu að hún er sett fram til að reyna að leysa málin. Hún er hugsuð sem lausn. Þannig að ef menn vilja leysa þau eiga þeir að sjálfsögðu að (Forseti hringir.) fallast á tillöguna. Ef menn vilja það ekki þá finna þeir einhverja annmarka á henni.