139. löggjafarþing — 163. fundur,  14. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[16:58]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil taka undir það síðasta. Um leið og ég heyrði þessa tillögu og var búin að meta hana smástund sá ég að þetta var tillaga sem væri til þess fallin að leysa þann hnút sem er kominn upp í þessu máli í þinginu. Ég tek undir með hv. þingmanni að vonandi fáum við tækifæri til þess að greiða sem fyrst atkvæði um þetta mál.

Það er alveg rétt sem hv. þingmaður segir þegar hún hvetur menn til að fara upp úr skotgröfunum. Það er akkúrat það sem við þurfum í þinginu, að breyta um vinnubrögð einmitt í þá veru sem hv. þingmaður lýsir hér.

Ríkisstjórnin skipti sjálf með sér verkum, segir í tillögum Framsóknarflokksins frá flokksþingi. Það er akkúrat það sem við erum að gera og er líka í samræmi við stjórnarskrána, í samræmi við það sem gerist hjá flestum Norðurlandanna sem hv. þingmaður þekkir vel til og vísaði til. Hv. þingmaður vísaði líka í atvinnuvegaráðuneyti og nauðsyn þess að stofna slíkt ráðuneyti. Ég fagna því að fá liðsmann með okkur í að fara (Forseti hringir.) í slíkar breytingar.