139. löggjafarþing — 163. fundur,  14. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[17:06]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hinn svokallaði septemberstubbur, við sitjum núna á þingi sem kallast septemberstubbur, var ekki bara hugsaður til að afgreiða einhver dagsetningamál. Þetta var ekki hugsað til þess, þetta var hugsað til þess að afgreiða mál sem væru langt komin og unnt væri að afgreiða. Reyndar hefur það breyst svolítið, septemberstubburinn hefur verið notaður til miklu meiri hluta en hugsað var. Því miður hefur hann þróast í ranga átt að því leyti. Ég tel að ef ekki hefði verið stundað málþóf í þessu máli værum við löngu búin að afgreiða það. Það er mjög auðvelt að segja þegar menn stunda málþóf, flestir viðurkenna að þetta sé málþóf. (GBS: Ekki ég.) Það var viðurkennt t.d. af stjórnarandstöðunni í gær, af einum hv. þingmanni. Það sjá allir sem vilja sjá að þetta er málþóf. Ef það hefði ekki verið stundað væri búið að afgreiða málið. Þá væri það frá. Við værum komin í önnur mál. Það er bara þannig.

Ég tel að hægt sé að afgreiða þetta mál. Ég tel að þetta horfi til framfara, þetta sé skynsamlegt mál og að sú breytingartillaga sem hv. þm. Eygló Harðardóttir og sú er hér stendur og Árni Þór Sigurðsson og Margrét Tryggvadóttir flytja sé til þess að flýta fyrir því að við getum farið að afgreiða önnur mál sem eru líka mikilvæg framfaramál. Ég held að það sé svolítið á höndum þeirra sem hafa stundað málþóf hvenær þetta mál afgreiðist.