139. löggjafarþing — 163. fundur,  14. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[17:36]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Frú forseti. Við ræðum frumvarp til laga um Stjórnarráð Íslands og höfum líka verið að ræða breytingar á ýmsum lögum vegna heildarendurskoðunar á lögum um Stjórnarráðið. Að gefnu tilefni vil ég taka það fram þar sem mikið hefur verið rætt um málþóf stjórnarandstöðunnar í þessu máli að ég er að taka til máls í fyrsta sinn um þetta mál, hef hvorki verið í andsvörum né flutt neina ræðu þannig að því verður seint haldið fram um mig að ég hafi verið valdur að einhvers konar málþófi hér í dag. Sú umræða gerir kröfu til þess að ég eyði í upphafi míns máls örstuttum tíma í að ræða þessa stöðu í hinu víða samhengi, þ.e. um samskipti stjórnar og stjórnarandstöðu almennt á þessu kjörtímabili og jafnvel lengur og um það hvort hér sé eitthvað óeðlilegt eða óheilbrigt á ferðinni varðandi málsmeðferð og umræðu um þetta einstaka mál. Ég get ekki látið hjá líða að minnast á að á árinu 2009 var af hálfu þess sama meiri hluta og hér fer með völd, reyndar með stuðningi Framsóknarflokksins, lagt til að stjórnarskránni yrði breytt. Þá var sama umræðan uppi, að þar sem sjálfstæðismenn gerðu við það athugasemdir og héldu uppi langri umræðu um það mál væri verið að beita einhvers konar ofbeldi gagnvart meiri hlutanum. En eftir því sem frá hefur liðið held ég að mönnum hafi orðið ljóst hvers konar frumhlaup það var af hálfu þeirra sem þá réðu för í þinginu að ætla sér að gera slíkar grundvallarbreytingar á einungis örfáum vikum og með nær engum aðdraganda.

Sum mál eru einfaldlega þannig vaxin að það á að leita samráðs um þau, það á að vinna vinnuna fyrir fram til að fyrirbyggja mikil átök í þinginu. Allir stjórnmálaflokkar og þingmenn gera sér grein fyrir því að við höfum sameiginlega hagsmuni af því að sumt sem lýtur að rammanum sem við störfum eftir sé í föstum skorðum og sé ekki sífellt verið að breyta eftir því hver fer með meiri hlutann hverju sinni. Stjórnarskráin er einmitt og var þannig mál og ég vil meina að lög um Stjórnarráð Íslands falli í þann sama flokk.

Um það efnisatriði þessa máls sem mest hefur verið deilt um hafa gilt reglur allt frá árinu 1969 sem ekki hefur verið hróflað við í grundvallaratriðum. Nú er lagt til að því atriði verði breytt og vald fært til forsætisráðherrans. Ég verð að lýsa ákveðinni undrun á þeirri umræðu sem farið hefur fram hér seinni partinn í dag sem snýr að því að þingið sé að beita meiri hlutann einhverju ofbeldi með því að ræða málið í löngum ræðum. Efnisatriði málsins snýst í raun og veru um átök á milli framkvæmdarvaldsins og þingsins og það er furðulegt að sjá þingmenn koma upp hvern á fætur öðrum og taka málstað framkvæmdarvaldsins á móti þinginu. Það er það sem er að gerast. Það er óumdeilanlegt að verið er að færa vald frá þinginu þar sem það hefur hvílt í þessa áratugi sem ég nefndi, frá 1969 meira eða minna óbreytt um þetta atriði, til forsætisráðherrans. Þess vegna hefur orðið forsætisráðherravæðing verið notað í samhengi við málið og það er að mínu áliti algerlega óútskýrt enn þá hvaða brýna þörf er á því að fela forsætisráðherranum þetta mikla vald.

Ég get ekki látið hjá líða að minnast á að vegna þeirra átaka sem hafa verið á milli stjórnarflokkanna er eiginlega ekki hægt að komast að annarri niðurstöðu en þeirri að skammtímapólitískir hagsmunir eða jafnvel pólitískar ástæður sem upp hafa komið mjög nýlega séu aðalástæðan fyrir því að það á að gera þessa langtímabreytingu. Það er ekki hægt að horfa fram hjá þessu. Þetta hlýtur að vera hluti umræðunnar hér og hefur reyndar verið nefnt á fyrri stigum þessa máls. Getur verið að hluti þess að hlaupin er svona mikil harka í þetta tiltekna atriði sé að forsætisráðherrann verði að fá þetta vald vegna þess hversu mikil deila er um málið, meira að segja á milli stjórnarflokkanna sjálfra?

Ég talaði um það í upphafi míns máls að það væri mikilvægt að reyna að leita samráðs allra þingflokka þegar svona grundvallarmál fer fyrir þingið en í þessu tiltekna dæmi hefur ekki einu sinni tekist fullt samráð á milli stjórnarflokkanna. Hvert er hið umdeilda atriði? Ég vil leyfa mér að vísa í álit 1. minni hluta allsherjarnefndar um athugasemdir okkar sjálfstæðismanna almennt en það sem mest hefur verið deilt um í umræðunum er þetta sem ég hef gert að umtalsefni, hvort bera þurfi undir þingið fjölda ráðuneyta og hvaða einstök ráðuneyti skuli vera að störfum í Stjórnarráðinu hverju sinni. Það er lagt til að forsætisráðherra geti tekið ákvörðun um þetta.

Var fjallað um þetta í skýrslu rannsóknarnefndarinnar? Nei, það er ekki hægt að leiða þessa niðurstöðu af umfjöllun skýrslu rannsóknarnefndarinnar heldur má finna hugmyndir um þetta fyrst og fremst í skýrslunni Samhent stjórnsýsla sem varð niðurstaða nefndar sem forsætisráðherra sjálfur kom á fót. Forsætisráðherrann setur af stað nefnd til að bregðast við skýrslu rannsóknarnefndarinnar. Áður en Alþingi hafði komist að niðurstöðu um þá skýrslu, áður en efnislegri meðferð málsins var lokið á þinginu kom forsætisráðherra á fót nefnd og þegar sú nefnd sem hún hafði sjálf skipað komst að niðurstöðu um að þetta væri mikilvægt var lagt frumvarp um breytinguna á þinginu. Hvergi annars staðar hefur verið eitthvert sérstakt ákall um að gera þessa miklu breytingu. Það er meðal annars af þessari ástæðu sem mér finnst undarlegt að þingmenn eins og hv. þm. Siv Friðleifsdóttir tali um að stjórnarandstaðan sé að beita einhverju foringjaræði með því að eiga samtal við formenn stjórnarflokkanna um það hvernig við ljúkum þingstörfunum. Foringjaræðið sem við eigum að vera að ræða er það sem birtist í málinu sjálfu sem er til umfjöllunar.

Þegar við förum yfir öll efnisatriði þessa máls kemur margt annað upp í hugann. Varðandi breytingar á Stjórnarráðinu heilt yfir hlýtur öllum að vera ljóst að síendurteknar breytingar á Stjórnarráðinu skapa glundroða, valda óvissu, kosta peninga og draga úr hagkvæmni og skilvirkni. Þetta er að mínu áliti ekki góður tími til að draga úr skilvirkni og auka kostnað og óvissu í Stjórnarráðinu.

Við skulum líka hafa í huga að frá því að þessi ríkisstjórn komst til valda hefur núgildandi fyrirkomulag ekki komið í veg fyrir að gerðar væru breytingar á Stjórnarráðinu. Þvert á móti hefur oftar en einu sinni á undanförnum árum verið ráðist í breytingar á Stjórnarráðinu og þó höfðu verið gerðar breytingar í tíð fyrri ríkisstjórnar á árinu 2007. Til grundvallar þeim breytingum sem núna eiga að bætast við liggur engin sérstök úttekt eða mat á því hvaða áhrif fyrri breytingar hafa haft. Við vitum hins vegar að rætt hefur verið um það á milli stjórnarflokkanna að koma á laggirnar atvinnuvegaráðuneyti. Það hefur ekki náð fram að ganga þrátt fyrir fyrri breytingartillögur sem ríkisstjórnin hefur lagt fram en manni býður í grun að vilji forsætisráðherrans til að koma á fót atvinnuvegaráðuneyti ráði hér alfarið för. Menn eiga þá bara að ræða það og rökstyðja hér hvaða brýna þörf rekur menn í að gera slíka hluti.

Í efnisatriðum frumvarpsins er komið inn á fjölmarga ólíka þætti. Einn þeirra sem hefur verið talsvert til umfjöllunar í fjölmiðlum er sá að ríkisstjórnarfundir verði teknir upp. Dæmi um ein hrossakaupin sem þurfti að fara í til að tryggja stuðning við málið í nefnd er að fallist var á tillögu hv. þm. Þráins Bertelssonar um að ríkisstjórnarfundir skyldu teknir upp.

Ákvæði sem á að gilda til framtíðar, og í þessu tilviki er um að ræða reglu þar sem upptökurnar verða ekki gerðar opinberar fyrr en að liðnum 30 árum, ber ávallt að varast, m.a. vegna þess að ákvæðinu er hægt að breyta með einfaldri lagabreytingu á þingi. Eftir að hafa gengið í gegnum þá hluti sem hér hafa gerst á undanförnum árum held ég að það sé fullt tilefni fyrir menn til að huga aðeins að því sem gerðist þegar hér urðu valdaskipti eftir hrunið 2008 og hvað meiri hlutanum sem þá tók við datt í hug að gera í hinu og þessu í kjölfarið. Ég get nefnt breytingar á stjórn Seðlabankans sem er stórmál en nýjum meiri hluta þótti þá sjálfsagt að gera. Ég var áður búinn að minnast á stjórnarskrárbreytingarnar. Það átti hvorki meira né minna en að grípa það stutta tímabil sem átti að líða fram að kosningum til að gera breytingar á stjórnarskránni sjálfri. Það var líka gengið í það verk að sópa út úr Stjórnarráðinu alls kyns embættismönnum og gera þar breytingar til að koma sínu fólki að og í kjölfarið, á árinu 2010, var hvorki meira né minna en í fyrsta sinn í þingsögunni farið í landsdómsmál. Halda menn virkilega að þeir sem hafa sýnt svona framkomu í tilefni af áfalli í þjóðarbúskapnum mundu víla eitthvað fyrir sér að létta trúnaði af ríkisstjórnarfundaupptökum? Er einhver minnsta ástæða, miðað við það hvernig stjórnarflokkarnir hafa komið fram undanfarin ár, til að ætla að hér muni ekki einhvern tíma í framtíðinni myndast meiri hluti eftir kosningar sem hefði hagsmuni af því að létta trúnaði af ríkisstjórnarfundaupptökum bara til að koma upp um einhver mál sem þar hefðu verið rædd? Ég er ekki í nokkrum einasta vafa eftir að hafa horft á þá atburði sem þessi ríkisstjórn hefur beitt sér fyrir að það eru líkur til þess, m.a.s. verulegar líkur, að einhvern tíma í framtíðinni gæti slíkur meiri hluti myndast á þinginu og þannig gert að engu þá tilraun sem hér er lögð til, vilja þess meiri hluta sem stendur á bak við hugmyndina um 30 ára trúnað, bara með einfaldri lagabreytingu. Ef menn gátu leyft sér að fara í landsdómsmál, breyta stjórnarskránni, henda seðlabankastjóra út á götuna o.s.frv. verður þetta smámál fyrir þannig hugsandi fólk fyrir utan auðvitað það að með því að hljóðrita ríkisstjórnarfundina er augljóst að menn yrðu mun varkárari í öllu orðavali á fundum, kæmu jafnvel með skrifaða talpunkta inn á ríkisstjórnarfundina þannig að þeir yrðu dálítið sótthreinsaðir og allur raunverulegur trúnaður færðist út af fundinum.

Það eru í þessu fjölmörg fleiri atriði sem ástæða er til að staldra við. Eitt þeirra er forræði ráðherranna yfir undirstofnunum sínum eða þeim sjálfstæðu stjórnvöldum sem stjórnarfarslega heyra undir ráðherrann. Það er bent á það í nefndaráliti 1. minni hluta hvaða spurningar vakna. Ég get tekið sem dæmi átök vegna Magma á Suðurnesjunum og þess hvernig ríkisstjórnin talaði fyrir því að pólitískur vilji væri til staðar sem væri á skjön við niðurstöðu nefndar um erlenda fjárfestingu. Ég tel að eftir margt af því sem gengið hefur á á undanförnum missirum veki spurningar þegar maður les svona ákvæði um það til dæmis sem bent er á í nefndaráliti, hvort það eftirlit ráðherrans sem þarna er mælt fyrir um taki til þess hvernig hin sjálfstæðu stjórnvöld eiga að haga málsmeðferðinni. Þetta er dálítið fráhvarf frá því sem við höfum rætt almennt séð undanfarin ár um að auka faglega stjórnsýslu og draga aðeins úr hinum pólitísku afskiptum vegna þess að þetta mundi ganga í þveröfuga átt.

Í 22. og 27. gr. er fjallað um aðstoðarmenn ráðherra. Ég tek það alveg skýrt fram að það hefur verið fullt tilefni til að taka það til endurskoðunar í góðu samstarfi þingflokkanna á Alþingi með hvaða hætti ætti að haga þessum aðstoðarmannamálum. Það hefur verið of algengt að það yrðu árekstrar milli embættismanna í stjórnsýslunni, sem við erum svo heppin að eiga marga mjög góða, og nýrra ráðherra sem koma þar inn. Við höfum séð dæmi þess á undanförnum árum að það virðist skorta á trúnað milli þeirra ráðherra sem koma nýir inn í ráðuneyti og þeirra sem hafa ef til vill verið skipaðir ráðuneytisstjórar eða háttsettir embættismenn í ráðuneytunum af forverum ráðherrans. Af þessari ástæðu hefur komið upp umræða um það hvort ráðherrann þurfi ekki að hafa eitthvert svigrúm til að hafa sjálfur frjálst val um sína nánustu pólitísku ráðgjafa og hér er sem sagt valin sú leið að fjölga pólitískum aðstoðarmönnum ráðherranna.

Það er alveg bráðnauðsynlegt í þessu samhengi að rifja upp að þingið komst að þeirri niðurstöðu fyrir ekki mjög mörgum árum að það væri fullt tilefni til að láta þingmenn landsbyggðarinnar hafa aðstoðarmenn. Við höfum enn ekki stigið það skref til fulls á þinginu, við höfum ekki tekið fjármuni til hliðar til að tryggja landsbyggðarþingmönnum aðstoðarmenn fyrst og fremst með þeim rökum að það væru ekki til fjármunir til að láta þingmenn hafa aðstoðarmenn. Hér er hins vegar mikill áhugi fyrir því hjá stjórnarmeirihlutanum, að því er virðist, að láta ráðherrana hafa 23 nýja aðstoðarmenn með þeim hátt í 200 millj. kr. viðbótarkostnaði sem því fylgir. Þetta er þannig aftur dæmi um að það er mulið undir framkvæmdarvaldið og þingið sparar við sig á sama tíma. Þetta eru ekki tímar til að fara í svona breytingar. Þetta eru röng skilaboð út í samfélagið og það er engin augljós þörf á að bæta við hátt í 200 millj. kr. kostnaði við starfsmannahaldið í ráðuneytunum á sama tíma og þingið sker niður hvern einasta kostnaðarlið og hefur meira að segja sparað, eins og ég segi, við sig sjálft hvað varðar aðstoðarmenn þingmanna. Mér finnst þetta tvennt stangast mjög á.

Síðan er í þessu samhengi athyglisvert að sjá að meiri hlutinn leggur til að ekki einungis skuli fjölga aðstoðarmönnunum heldur skuli það gerast strax þrátt fyrir að frumvarpið sjálft hafi gert ráð fyrir eða breytingin ætti ekki að taka gildi fyrr en á næsta kjörtímabili.

Í því atriði sem snýr að valdi forsætisráðherrans vakna upp margs konar spurningar. Það er ekki ástæða til að gera því skóna að forsætisráðherra mundi nokkurn tímann misfara svo með vald sitt að hann rífi einstaka málaflokka af fagráðherrunum þegar ágreiningur kemur upp. Það er samt opnað á það. Málaflokkar sem eru komnir í ágreining eru samkvæmt þessu nýja frumvarpi undirseldir því valdi forsætisráðherrans að hann geti kippt þeim til sín og tekið af ráðherrunum, jafnvel er hægt að taka heilu málaflokkana af mönnum.

Hver hefur málflutningur stjórnarandstöðunnar um þessi atriði verið? Hann hefur verið sá að þrátt fyrir öll önnur efnisatriði í frumvarpinu væri fullt tilefni til að viðhalda reglunni um að forsætisráðherra kæmi með málið inn í þingið. Hér hefur verið til umfjöllunar breytingartillaga fjögurra þingmanna um að það ætti að láta duga að frumvarp eða þingsályktunartillaga þess efnis kæmi hingað í eina umræðu og færi svo í atkvæðagreiðslu. Hvers vegna má ekki taka það mál til skoðunar í þinginu, senda til nefndar og ræða það? Í frumvarpinu er gengið út frá því að í stað þess að það komi lagafrumvarp hafi forsætisráðherrann þetta alfarið hjá sér. Þá kemur fram tillaga sem við getum nefnt málamiðlunartillögu um að þetta verði þá ekki í lagafrumvarpsformi heldur þingsályktunarformi og að hún megi bara fá eina umræðu. Hvers vegna þolir slíkt mál ekki tvær umræður? Er ekki öllum ljóst að það er langlíklegast að breytingar sem verða gerðar á Stjórnarráðinu almennt séð tengist ríkisstjórnarskiptum? Það er í kjölfar kosninga og við myndun nýrra ríkisstjórna sem er langlíklegast að einhverjar breytingar af þessu tagi verði gerðar. Þar kann líka að vera ákveðið að einhvern tímann á kjörtímabilinu verði aðrar breytingar gerðar. En er niðurlagning ráðuneyta, uppsetning nýrra ráðuneyta og tilflutningur málefna á milli ráðherra þess eðlis að ráðherrann þurfi alltaf að hafa við höndina heimildina til að gera þetta á morgun eða hinn eins og það komi alltaf reglulega upp í störfum forsætisráðherrans eða hverrar ríkisstjórnar eitthvert brýnt tilefni, það þurfi að tryggja forsætisráðherranum svo rúmt svigrúm að ef brýna nauðsyn beri til að leggja niður eitthvert ráðuneyti eða flytja heilan málaflokk yfir á eitthvað annað sé bara allt of viðurhlutamikið að ræða málið við þingið?

Auðvitað er þetta ekki þannig mál. Þetta er ekki eitthvert mál sem við getum afgreitt eins og hverja aðra reglugerðarheimild fyrir ráðherra. Við erum að tala um sjálfan kjarnann í framkvæmdarvaldinu, hvaða ráðuneyti við ætlum að hafa og hvaða málaflokkar heyra undir hvert þeirra. Ég vil halda því til haga í þessu sambandi að við höfum ekki gert ágreining um að það væri alveg tilefni til að hafa Stjórnarráðið í reglulegri endurskoðun. Talsvert miklar breytingar hafa verið gerðar á Stjórnarráðinu á undanförnum árum og ég nefndi áðan að meira að segja á þessu kjörtímabili hefur núverandi fyrirkomulag þessara mála ekki komið í veg fyrir að ríkisstjórnin gæti gert þessar breytingar. Það sem hefur hins vegar komið í veg fyrir að vilji forsætisráðherra næði að fullu fram að ganga er óeining innan stjórnarflokkanna. Það er málið.

Þeir sem hafa fylgst með þessari umræðu skilja ekkert í því að hún taki langan tíma. Forsætisráðherrann kallar til stjórnarandstöðunnar að hún haldi uppi málþófi. Þessir aðilar verða að gera sér grein fyrir því og aðrir stjórnarliðar að frumvarpið í heild sinni hefur að okkar áliti ekki slíka ágalla að það þurfi alfarið að vísa því frá heldur höfum við fyrst og fremst tekist á um þetta eina atriði og það er þess efnis að það er engin brýn nauðsyn til að koma því í gegnum þetta þing fyrir 1. október. Það væri hægt að afgreiða meira eða minna öll önnur efnisatriði frumvarpsins og halda síðan áfram að ræða það með hvaða hætti samráð við þingið ætti að vera um skipan Stjórnarráðsins í framtíðinni. Þetta finnst mér að þessu leytinu til ekki hafa verið málefnalegt. Ég ræddi þetta áðan með þingsályktunartillöguna og ég skil ekki hvers vegna hún má ekki koma hingað inn eins og aðrar þingsályktunartillögur. Ef við á annað borð ætlum að ræða þingsályktunartillöguhugmyndina sem einhverja málamiðlun finnst mér að menn þurfi að útskýra hvers vegna hún má ekki koma hingað inn til venjulegrar meðferðar.

Það er síðan þannig með þetta mál eins og mörg önnur sem lenda í ágreiningi undir lok þingstarfa að þau gefa okkur öllum tilefni til að velta því fyrir okkur hvers vegna við lendum ítrekað í þeirri stöðu á þinginu að þurfa að halda langa kvöldfundi og jafnvel fram á nótt og þessa fundi sem nefndir voru hér til vitnis um einhvers konar foringjaræði. Ég bendi á að forseti Alþingis að jafnaði hefur haft milligöngu um svona samninga og núverandi forseti Alþingis hefur staðið sig afar vel í að leita sátta milli stjórnar og stjórnarandstöðu. Hún hefur beitt sér ítrekað í því, leggur áherslu á að vera þátttakandi í öllum slíkum viðræðum og ég vil nota þetta tækifæri til að þakka fyrir hennar atbeina til að hafa röð og reglu hér á hlutunum.

Hvers vegna lendum við í þessu? Er ekkert til í því sem hv. þm. Siv Friðleifsdóttir hefur fjallað hér um? Hún fékk mikið hrós frá hæstv. forsætisráðherra fyrir að segja að við þyrftum að gera einhverjar breytingar. Jú, jú, það er heilmikið til í því. En leysir þetta mál hér þann vanda, er þetta eitthvert innlegg í lausn þess vanda? Ég held að það sé þvert á móti, það er gengið í hina áttina og framkvæmdarvaldið látið fá meira vald. Þetta hefur ekkert sjálfstætt innlegg í lausn þess vanda. Það er hins vegar fyrir okkur til þess að hugleiða hvað hægt er að gera.

Við Íslendingar skulum horfast í augu við það að við erum fámenn þjóð. Við erum eins og lítið þorp í alþjóðlega samhenginu og auðvitað hlýtur það að vera okkur til umhugsunar hvers vegna þessir dagar í árinu, sem eru jafnmargir hér og annars staðar, duga okkur oftast ekki til að ljúka þingstörfunum og þeim verkefnum sem fyrir okkur eru lögð. Hvers vegna er það? Þjóðþing annars staðar, jafnvel þar sem hundruð milljóna íbúa er að finna, hafa jafnmarga daga til að klára fjárlög og allar aðrar helstu brýnu lagabreytingar. Við erum meðvituð um að þar er mjög algengt að ræðutími sé takmarkaður, en það er ekki hægt að ganga þessa braut þannig að það sé gengið á möguleika stjórnarandstöðunnar til að koma fram sínum sjónarmiðum án þess að einhverjar aðrar mótvægisaðgerðir komi til á sama tíma til að rétta hlut stjórnarandstöðunnar.

Í því efni er nærtækt að horfa til forseta Alþingis og hlutverks hans. Víða segir forseti viðkomandi þjóðþings af sér þingmennsku, víkur af þingi þegar og ef hann er kosinn vegna þess að hann hefur það meginhlutverk að sitja eins og á sátta- eða friðarstól yfir þinginu og hefur mikið með það að gera hvernig dagskráin fer þar fram. Þetta er nokkuð sem við getum tekið til umræðu og ættum að gera á næstu árum. Þetta tengist líka umræðunni um breytingar á stjórnarskránni, sem eru núna til umfjöllunar, og því með hvaða hætti kosið er til þings og hvert hlutverk forseta Íslands á að vera í framtíðinni. Allt tengist þetta.

Núverandi stjórnarmeirihluti sem leggur til, eins og ég segi, að völd verði færð frá þinginu til framkvæmdarvaldsins hefur ekki á þessu kjörtímabili sýnt þessum málefnum mjög mikinn skilning. Ég nefni til vitnis um það að þegar núverandi stjórnarflokkar tóku við völdum hér í febrúarmánuði 2009 var eitt fyrsta verk þeirra að víkja þáverandi hæstv. forseta þingsins, Sturlu Böðvarssyni, frá og koma með sinn eigin forseta til merkis um að hér væri kominn nýr meiri hluti og nýr forseti á vegum nýja meiri hlutans sem mundi hér stjórna för eftir því sem nýi meiri hlutinn vildi. Ekki var það gott innlegg af hálfu þeirra sem kvarta undan framgöngu stjórnarandstöðunnar til þróunar þessara mála. Þvert á móti, þetta var ömurlegur vitnisburður um það með hvaða hætti menn líta á átök minni hlutans og meiri hlutans í þinginu.

Hið sama verður að segja um fjölmörg þau frumvörp sem við höfum tekist á um á þessu þingi. Ég nefni fiskveiðistjórnarmálið sem kom inn í þingið í sumar. Hver var krafa stjórnarmeirihlutans þar? Ráðherrarnir höfðu frest til 1. apríl til að koma fram með málið en hver var krafan þegar málið kom hér fram einhvern tímann upp úr mánaðamótunum maí/júní ef ég man rétt? Krafan var sú að málið fengi skilyrðislausa afgreiðslu.

Þegar stjórnarandstaðan beitti sér gegn því og tók harkalega á móti — vissulega var farið í talsvert umfangsmikla 1. umr. um málið — var mjög kvartað undan því að málið fengi ekki að fara til nefndar. Átökum milli stjórnar og stjórnarandstöðu lauk með því að það rann upp fyrir stjórnarmeirihlutanum að málið hafði ekki bara komið allt of seint fram heldur var líka slík hrákasmíð, vil ég leyfa mér að segja, að hver og einn einasti umsagnaraðili vildi gera á því breytingar eða hafnaði því efnislega í öllum meginatriðum. Þessi sama ríkisstjórn og er núna að berja þetta mál í gegnum þingið og krefjast hér næturfunda og tilslökunar af hálfu stjórnarandstöðunnar, vill fá þetta í atkvæðagreiðslu, var að baki því máli. Og ég gæti tínt til fleiri dæmi.

Vilji menn á annað borð þróa þingstörfin í átt til meira jafnvægis á milli stjórnar og stjórnarandstöðu, heilbrigðari vinnutíma og hefja virðingu þingsins á hærra plan þannig að hún verði endurheimt, skulum við segja, hjá þjóðinni hefur þessi ríkisstjórn og þessi stjórnarmeirihluti nákvæmlega ekki neitt lagt til þeirra mála. Ég lýsi mig hins vegar reiðubúinn til að taka af heilum hug þátt í þverpólitísku samtali um það hvernig við gerum þessar breytingar þannig að við færumst nær því að skapa hér eðlilegt ástand á þinginu.

Í því máli sem hér er undir sem fjallar um tilflutning valds frá þingi til framkvæmdarvaldsins er hins vegar ekki gengin sú braut sem ég hef talað fyrir. Ég hef beitt mér fyrir því hér á þeim árum sem ég hef starfað á þinginu að það yrði betur undirstrikað að þingið fer með æðsta valdið. Það er alveg óumdeilanlegt samkvæmt stjórnarskránni að æðsta valdið í þrískiptingu ríkisvaldsins liggur hjá þinginu. Héðan er framkvæmdarvaldinu veitt aðhald og héðan stafar öll lagasetning sem dómstólar dæma eftir og framkvæmdarvaldinu er í raun og veru sett fyrir að framkvæma. Þetta finnst mér ekki hafa endurspeglast nægilega vel í gegnum tíðina en við höfum þó fikrað okkur aðeins inn á réttar brautir.

Eitt dæmi um jákvæða breytingu er aukin viðvera ráðherranna í fyrirspurnatímum. Ég tel að það hafi verið gott skref að fjölga fyrirspurnatímunum. Þeir hafa dregið á móti úr umræðum um störf þingsins og öðru sem var farið að nota til að koma af stað almennri stjórnmálaumræðu í þinginu. Þannig held ég að eitt og annað sem við höfum gert á hinum seinni árum hafi verið til þess fallið að bæta yfirbragðið og almenna umræðu á þinginu og skapað léttari og sveigjanlegri grundvöll fyrir orðaskipti. Þau löngu viðræðubil sem voru áður milli þings og ráðherranna eru ekki eins áheyrileg, mundi ég vilja segja, eins og fyrirspurnatímarnir sem við höfum núna fjölgað.

Eins og ég tók fram áðan er ég mjög reiðubúinn að breyta því sem þarf og veit að margir, ef ekki allir, í mínum þingflokki eru sömu skoðunar um að það er fullt tilefni til að endurskoða þessi vinnubrögð á þinginu. Ég vil að það sé alveg skýrt að slíkar breytingar verður að gera í góðri sátt og ekki í skugga einhverra deilumála á milli stjórnarflokkanna hverju sinni. Þetta tiltekna mál og þetta umdeilda atriði hér í þessu máli eiga rætur sínar að rekja til þess að þrátt fyrir að ríkisstjórnin hafi gert breytingar á Stjórnarráðinu á þessu kjörtímabili, sem er þó ekki nema tveggja ára gamalt, hefur henni ekki tekist að ná fram því markmiði sínu að koma á fót atvinnuvegaráðuneyti. Það vita allir hér að þingmenn hafa gengið úr stjórnarmeirihlutanum sem eru mótfalllnir þessari breytingu og meira að segja ráðherrar í ríkisstjórninni eru líka mótfallnir henni. Þetta verður að taka með í reikninginn þegar við spyrjum okkur: Hvers vegna er lögð svona mikil áhersla á að klára þessa grundvallarbreytingu hér í dag?

Við skulum líka hafa annað í huga, það er frekar ólíklegt í framtíðinni að nokkur ríkisstjórn mundi eftir kosningar eða eftir einhvers konar valdaskipti í þinginu leggja til breytingu þess efnis að ganga aftur til baka eftir að þessi breyting hefur verið gerð. Það er ólíklegt að ríkisstjórn sem á annað borð er búin að fá vald til að haga þessu nákvæmlega eins og hún vill, eins og forsætisráðherrann leggur til, muni gefa það aftur frá sér til þingsins. Því eru allar líkur til þess að verði lögfest sú breyting sem felst í 2. gr. muni þetta ákvæði gilda um mjög langa framtíð. Valdaframsalið frá þingi til framkvæmdarvalds hefur tilhneigingu til að skila sér ekki aftur til þingsins. Það er hins vegar mun auðveldara að gera breytingar sem ganga í hina áttina, þ.e. að tempra það vald sem ríkisstjórnin hefur. Við höfum til dæmis verið með slík mál til umræðu í tengslum við skýrslu rannsóknarnefndarinnar og mikil samstaða var um það í þinginu að það þyrfti að finna leiðir til þess. Vandinn er bara sá að það tiltekna mál sem við erum að ræða hér gengur alveg í þveröfuga átt.

Virðulegi forseti. Það eru fjölmörg atriði sem gefa tilefni til umræðu en eins og ég sagði áðan leyfi ég mér að vísa til athugasemda 1. minni hluta allsherjarnefndar sem þeir hv. þm. Birgir Ármannsson og Sigurður Kári Kristjánsson skrifuðu undir. Þar eru rakin þau helstu sjónarmið sem varða allar þessar greinar lið fyrir lið á sjö síðum. Andinn í þessum breytingum sem fjallað er um á fyrstu tveimur síðum nefndarálitsins er samt meginatriðið.

Það verður að geta þess, af því að ég minnist á nefndarálitið, að einungis þrír af sex úr meiri hluta allsherjarnefndar rituðu undir meirihlutaálitið án fyrirvara. Þrír þeirra, helmingur meiri hluta allsherjarnefndar, skrifa undir álitið með fyrirvara sem bendir til þess að fjölmörg ágreiningsatriði hafi enn verið óútkljáð. Ég hef ekki vikið að því í máli mínu fram til þessa en það er sjálfsagt að geta þess hér undir lokin að það er athyglisvert að meiri hluti allsherjarnefndar skuli ekki einungis leggja það til að ráðherrann fái þetta vald heldur bætir um betur og leggur til að ákvæðið sem kveður á um hámarksfjölda ráðuneyta verði líka fellt brott þannig að það verði gengið jafnvel enn lengra í að færa völd til forsætisráðherra en gert var ráð fyrir í upphaflegum búningi frumvarpsins.

Þetta eru þessi helstu atriði um efnisatriði frumvarpsins sem ég vildi koma frá mér við þessa umræðu. Ég hef auðvitað komið líka inn á aðra umræðu sem hefur fylgt þessari sem snýr að samskiptum þings og framkvæmdarvalds og samskiptum meiri hluta og minni hluta á þinginu en ég læt þetta duga að sinni, frú forseti.