139. löggjafarþing — 163. fundur,  14. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[18:18]
Horfa

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Í fjölmörgum þeim þáttum sem við erum að reyna að laga eftir hrunið, sem er hin raunverulega ástæða fyrir þessum breytingum, ef hv. þingmann rekur minni til þess að hér gerðust ákveðnir atburðir fyrir næstum þremur árum, höfum við einmitt sótt til þessara norrænu ríkja, til dæmis í þingskapafrumvarpinu sem varð að lögum þar sem stjórnarandstaðan á að fá meiri áhrif en áður, sem eflir sjálfstæði þingsins gagnvart framkvæmdarvaldinu. Það sækjum við til Norðurlanda.

Í umræðum um m.a. Árósafrumvarpið var það sérstakt áhugaefni talsmanna Sjálfstæðisflokksins að við könnuðum norræna löggjöf. Það veit lögfræðingurinn og hv. þm. Bjarni Benediktsson vel að hin íslenska löggjöf og íslenska stjórnkerfið er að mörgu leyti lagað eftir danskinum. Það er ekkert skrýtið, það á sér sögulegar hliðstæður og þess vegna förum við oft fyrst til Danmerkur og síðan til Noregs og Svíþjóðar þegar við leitum okkur fyrirmynda um (Forseti hringir.) löggjöf um stjórnsýslu.