139. löggjafarþing — 163. fundur,  14. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[18:21]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er ekki með beina spurningu til hv. þingmanns en mig langar hins vegar að gera smáathugasemd við það sem fram kom í ræðu hans.

Hann minntist á að mörgum lögum hefði verið breytt í tíð núverandi ríkisstjórnar, til dæmis um Seðlabanka og ýmislegt annað, og var kannski ekki vanþörf á eftir þau skakkaföll sem þjóðfélag okkar varð fyrir því miður fyrir þremur árum.

Hv. þingmaður segir að frumvarpið sé lagt fram vegna atvinnumálaráðuneytis. Það er hárrétt, það hefur lengi verið á stefnuskrá þess flokks sem ég er í að stofnað verði atvinnumálaráðuneyti og var flutt um það frumvarp á þinginu árið 2003 eða 2004.

Þetta frumvarp, þessi bók, er hins vegar ekki hér þess vegna. Ég vil lesa, með leyfi forseta, úr skýrslu nefndar sem skipuð var árið 2009 og skilaði skýrslunni af sér rúmu hálfu ári eða ári seinna:

„Verkefni nefndarinnar er að gera tillögur að heildarendurskoðun á lögum um Stjórnarráð Íslands í þeim tilgangi að ná fram markmiðum (Forseti hringir.) um að auka sveigjanleika milli ráðuneyta og stofnana, tryggja að þekking (Forseti hringir.) og mannauður sé nýttur til fulls og auka gagnsæi í vinnubrögðum Stjórnarráðsins (Forseti hringir.) og upplýsingastreymi til almennings.“

Er hægt að segja að það sé til þess (Forseti hringir.) að leggja niður eitt ráðuneyti?

(Forseti (SF): Ég bið hv. þingmenn um að virða ræðutímann.)