139. löggjafarþing — 163. fundur,  14. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[18:59]
Horfa

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Það er stefna Samfylkingarinnar, samþykkt á flokksráðsfundi, að ráðherrar eigi ekki að sitja á þingi. Það hefur reyndar lengi verið stefna framsóknarmanna, m.a. hv. þm. Sivjar Friðleifsdóttur, sem nú situr á forsetastóli. Það er því miður ekki hluti af þessu frumvarpi og þar valda að því er sagt er fjárhagsaðstæður, þetta kostar töluvert fé og þess vegna hafa menn ekki náð samstöðu um það. Ég vona að menn geri það og fagna stuðningi hv. þingmanns við þetta.

Nei, ég held að þetta frumvarp sé ekki byggt beinlínis á stjórnarráðsstefnu Framsóknarflokksins, en það eru mörg líkindi með því og ég fagna þeim líkindum og vildi að framsóknarmenn stæðu betur við stefnu sína en gert er, bæði gamlir og nýir framsóknarmenn.

Um oddvitana á tíu sekúndum er það sumsé 4. liður breytingartillagna okkar. Það er ekki sagt „oddvitar“ vegna þess að þeir eru hvergi skilgreindir í lögum eða stjórnarskrá en það er talað um ráðherra ríkisstjórnarinnar. Þegar þeir koma sameiginlega fram eiga þeir að skila því inn í ríkisstjórnina þannig (Forseti hringir.) að þeir geti ekki talað saman einir og ráðið öllu með þeim hætti án þess að aðrir þekki til.