139. löggjafarþing — 163. fundur,  14. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[19:08]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Já, ég tel að það sé akkúrat það sem ég hef verið að reyna að segja í máli mínu. Ég tel að menn séu ekki að einbeita sér að aðalatriðunum í málinu. Menn hafa fest af einhverjum orsökum í öðrum hliðum þessara breytinga. Hluta af því tel ég vera að þingið hafði sjálft ekki meira frumkvæði að því að smíða frumvarpið — ég tel að það sé grundvallaratriðið í þessu — heldur er það ráðuneytið sem gerir það og fær, áður en það var gert, nefnd sérfræðinga til að skila tillögum og yfirfara þessi mál, sem er í sjálfu sér allt í lagi. En við það flyst áherslan frá þeim tillögum og ábendingum sem birtast okkur í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis og í þingmannanefndarskýrslunni yfir á tillögur frá sérfræðingunum, sem má alveg taka til umræðu en þá er ekki hægt að segja að málið sé sett fram til að mæta tillögunum sem koma fram í þessum tveimur skýrslum, það er einfaldlega rangt.