139. löggjafarþing — 163. fundur,  14. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[19:12]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Já, ég tel að við eigum að fara meira út á þá braut og ég tel að vinnan í félagsmálanefnd sýni okkur að það sé hægt. Hins vegar má segja að oft eru málin sem rata á borð félagsmálanefndar þess eðlis að hægt er að setjast í ró og næði yfir þau og ná einhverri sameiginlegri lendingu. Við förum þar með málaflokka eins og atvinnuleysismálin og skuldavanda heimilanna og fleiri mál af þeim toga þar sem við öll erum í grunninn að reyna að leita lausna til að bæta umhverfið.

Ég tel að við verðum að reyna að sýna þann þroska og gera virkilega raunverulega tilraun til þess að setjast með þeim hætti yfir þungu málin líka, þar sem við tökumst meira á og þar sem eru í rauninni sterkari skil á milli stefnu flokkanna. Ég tel að hægt sé að nálgast þetta viðfangsefni í nefndunum, að reyna að láta viljann til að ná sameiginlegri niðurstöðu til að rétta lögin (Forseti hringir.) koma fram þar en ekki hér í þinginu.