139. löggjafarþing — 163. fundur,  14. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[19:13]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég tek undir með hv. þingmanni hvað þetta snertir og ég er sannfærður um að þetta er hægt. Það hefur sýnt sig í ákveðnum málum, ekki bara í félagsmálanefnd. Það sýndi sig til að mynda í mjög umdeildu máli í fjárlaganefnd á sínum tíma, Icesave-málinu, þar sem unnið var á þeim grunni jafnvel þó að ekki hefði verið komið með málið inn í sátt.

Annað sem mig langar að inna hv. þingmann eftir, þ.e. að ráðherrar eigi ekki sæti á Alþingi. Hefði hv. þingmaður viljað sjá einhverjar konkret breytingar í allri þeirri vinnu hvað það snertir? Hefðum við ekki átt að stíga það skref samhliða því sem við erum að vinna þetta frumvarp og leggja það fram að ráðherrar ættu ekki sæti á Alþingi? Hvað telur þingmaðurinn að valdi því að það var ekki gert samhliða þessu máli?