139. löggjafarþing — 163. fundur,  14. sept. 2011.

fundarstjórn.

[20:13]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Virðulegur forseti. Ég bið frú forseta að beita sér fyrir því að umræður fái að halda áfram um það mikilvæga mál sem er á dagskrá sem snýst um stjórnsýslubætur og er byggt á rannsóknarskýrslu Alþingis og tillögum sérfræðinga í stjórnsýslu. Eins og hv. þingmenn muna voru ein af helstu og skýrustu skilaboðunum í rannsóknarskýrslu Alþingis að stjórnsýsla Íslands sé veik og að hana þurfi að bæta og styrkja. Það kallar hv. þm. Gunnar Bragi Sveinsson áhugamál forsætisráðherra. Ég get fullvissað hv. þingmann um að það er einnig áhugamál þeirrar sem hér stendur að við lærum af fortíðinni, lærum af skilaboðum sem rannsóknarskýrslan gaf okkur og höldum áfram að bæta stjórnsýsluna. (Forseti hringir.)