139. löggjafarþing — 163. fundur,  14. sept. 2011.

fundarstjórn.

[20:16]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Ég skil ekki hvers vegna þessi ágæta umræða má ekki halda áfram um það mál sem er á dagskrá. Hæstv. forseti ræður þeirri dagskrá sem hér er og það er full ástæða til að ræða dagskrármálin. Að fulltrúar stjórnarandstöðunnar kalli á hlé á umræðunni lýsir því kannski að umræðan sé af þeirra hálfu að mestu leyti tæmd, enda hefur hún staðið alllengi og að ég hygg að flest sjónarmið séu komin fram í henni. Þá er ekki annað að gera en að ljúka umræðunni og ganga til atkvæða um málið og ljúka því með lýðræðislegum hætti. Það liggur fyrir hvað tekist er á um í málinu og það liggur líka fyrir að stjórnarmeirihlutinn er tilbúinn að koma til móts við sjónarmið minni hlutans í því og það má ná samkomulagi um lok þinghaldsins í september. Það er ekkert því til fyrirstöðu að formenn þingflokka og forustumenn flokkanna hafi um það samráð (Forseti hringir.) og að umræðunni verði haldið áfram í (Forseti hringir.) kvöld.