139. löggjafarþing — 163. fundur,  14. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[20:45]
Horfa

Magnús Orri Schram (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér þótti það heldur skrýtin röksemdafærsla hjá hv. þingmanni að réttlæta málþófið í dag með því að vísa í hvernig hlutirnir voru gerðir í gamla daga. Ég er reyndar ekki alveg jafnupptekinn af fortíðinni og gömlu vinnuháttum og hv. þingmaður, ég tel að breyta eigi vinnubrögðum á Alþingi, þjóðin á skilið ný vinnubrögð hér, og þess vegna eigi ekki alltaf að vísa í fortíðina til að sækja sér röksemdir.

Þá þótti mér einnig athugavert að heyra andstöðu hans við sameiningu ráðuneyta sjávarútvegs, landbúnaðar og iðnaðar. Hann hefur áhyggjur af 18 starfsmönnum iðnaðarráðuneytisins, að þeir muni tröllríða öllu starfi sjávarútvegs og landbúnaðar, en þarna munu verða á milli 60 og 70 starfsmenn þegar ráðuneytin verða sameinuð.

Mín skoðun er sú að auka þurfi samvinnu milli greina, þvert á greinar. Við sjáum fyrir okkur stórkostlega möguleika þegar nýsköpunarmál, matvæli og ferðaþjónusta, Byggðastofnun, málefni ferðamála og landbúnaðar verða á sama vettvangi. Ég held að þar séu stórkostleg tækifæri fyrir landbúnaðinn, sjávarútveginn og iðnaðinn, ferðaþjónustu, (Forseti hringir.) byggðamál og fleira í sameinuðu sterku ráðuneyti.