139. löggjafarþing — 163. fundur,  14. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[20:49]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Í ljósi þess hversu áhugasamur hæstv. forsætisráðherra hefur verið um að hringla í Stjórnarráðinu í tíma og ótíma og í ljósi þess hversu miklar breytingar hafa verið gerðar, ómarkvissar, óskýrar og með litla framtíðarsýn, hef ég sannfærst enn meira um að það sé beinlínis hættulegt að hæstv. forsætisráðherra fái það vald að geta hringlað með þetta allt saman hægri og vinstri án þess að bera það undir Alþingi, án þess að bera það undir nokkurn utan Stjórnarráðsins. Reynsla síðustu tveggja ára sýnir okkur, einkum og sér í lagi meðan þessi hæstv. forsætisráðherra er starfandi, að það er hættulegt. Það á einnig við um alla sem eiga eftir að (Forseti hringir.) koma á eftir henni.