139. löggjafarþing — 163. fundur,  14. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[21:08]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F) (andsvar):

Frú forseti. Nú liggur ljóst fyrir að frumvarpið felur í sér flutning á valdi sem í dag er hjá Alþingi yfir til hæstv. forsætisráðherra. Það er sú gagnrýni sem komið hefur fram á frumvarpið þrátt fyrir að hæstv. forsætisráðherra hafi neitað því, en hún hefur þó viðurkennt það með því að segja að verið sé að koma til móts við þetta með ákveðinni breytingartillögu sem hins vegar gengur ekki upp eins og ég rakti í ræðu minni áðan.

Það sem mig langar að beina til hv. þingmanns er hvað hann telji að valdi því að hæstv. forsætisráðherra skuli sækja það svo stíft að ná í gegn á Alþingi Íslendinga árið 2011 tillögu sem felur í sér þennan gríðarlega valdaflutning frá Alþingi til hennar sjálfrar? Hvað er það sem býr þarna að baki?