139. löggjafarþing — 163. fundur,  14. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[21:09]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég hef velt þessu töluvert fyrir mér og ég trúi því varla að sú niðurstaða sé rétt sem ég kemst að. Hún er sú að menn ætla að flýta umsókninni um Evrópusambandið með því að taka það málefni frá þeim óþekka, óþæga ráðherra sem með það fer og flytja það yfir til forsætisráðuneytisins eða til efnahagsráðuneytisins, þar sem eru ráðherrar sem hafa mikinn áhuga á því máli.

Það sem ég held að þetta frumvarp endurspegli númer eitt, tvö og þrjú er að núverandi ríkisstjórn er ekki með eina stefnu. Hún er ekki starfhæf, hún er með tvær stefnur fyrir þjóðina. Þess vegna gengur okkur svona óskaplega illa hér á landi. Annar hluti ríkisstjórnarinnar vill ganga í Evrópusambandið og hinn vill það alls ekki og vill gera eitthvað allt annað. Það endurspeglast í frumvarpinu, að menn ætla sér að keyra svona breytingar í gegn þrátt fyrir að (Forseti hringir.) stór hluti þingsins sé á móti þeim.