139. löggjafarþing — 163. fundur,  14. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[21:40]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það hefur oft verið sagt úr þessum ræðustóli í dag og undanfarna daga að verið sé að auka vald framkvæmdarvaldsins á kostnað Alþingis. Hæstv. forsætisráðherra lætur þetta greinilega fara mjög í taugarnar á sér, ég tók eftir því í sjónvarpsfréttunum í kvöld að hæstv. ráðherra reyndi að bera þetta til baka. Nú ætla ég að fullyrða eitt, þrátt fyrir allt sem sagt hefur verið um greind okkar þingmanna úr ræðustóli Alþingis fyrr í dag held ég að við séum öll nokkurn veginn svipað læs. Það liggur alveg fyrir að við kunnum öll að lesa og getum þess vegna lesið það sem stendur skrifað. Í frumvarpinu segir einfaldlega að nú eigi framkvæmdarvaldið að fara með það vald hvernig ráðuneytum er skipað en áður hefur Alþingi haft þetta vald og þannig er það í dag. Þetta er algjörlega óumdeilt.

Hugsunin með þessu frumvarpi er sögð sú að auka sveigjanleika. Með þessum hugmyndum er mögulega verið að fjölga ráðuneytum og ráðherrum vegna þess að það er talið hluti af sveigjanleikanum sem þurfi að vera til staðar ef verkefnum er ójafnt dreift. Þessi (Forseti hringir.) tilgáta mín er sú að mögulega verði hér stórfjölgun ráðuneyta og ráðherra og þar með aðstoðarmanna sem dreifist um þessi ráðuneyti. Hún er alveg í samræmi við þá hugsun (Forseti hringir.) sem … meiri hluta allsherjarnefndar.