139. löggjafarþing — 163. fundur,  14. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[21:44]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta er ágætissamlíking. Auðvitað notar maður ekki sömu peningana tvisvar. Samkvæmt frumvarpinu kostar þetta að mati fjármálaráðuneytisins um 100 milljónir. Það er hægt að gera býsna mikið fyrir þann pening á heilbrigðsstofnuninni á Sauðárkróki, svo notað sé dæmi hv. þingmanns. Það má líka spyrja sig hvort heilbrigðisstofnunin á Húsavík, sem er í kjördæmi hæstv. forseta er nú situr í forsetastól, gæti ekki notað þessa fjármuni sem stjórnarmeirihlutinn vill setja í aðstoðarmenn.

Það er enginn að segja að ekki geti verið þörf á aðstoðarmönnum en það er hins vegar líka þörf á að auka fjármuni til sjúkrahúsanna. Það kom fram hjá hv. þm. Pétri H. Blöndal að í nefnd um endurskoðun almannatrygginga er ekki hægt að gera ákveðna hluti af því að þeir kosta peninga. Kvikmyndaskóli Íslands fær ekki fjármuni, en það er hægt að auka peninga til aðstoðarmannanna. Þessi sýn sem ríkisstjórnin er að reyna (Forseti hringir.) að teikna upp gengur ekki upp, að finna eitthvert norrænt velferðarkerfi og allt þetta, meðan þetta snýst bara um að auka völd.