139. löggjafarþing — 163. fundur,  14. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[22:01]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta allshn. (Vigdís Hauksdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tek undir hvert orð hjá þingmanninum um að hér vanti forgangsröðun og það sé ekki verið að skapa svigrúm fyrir atvinnulífið til að það geti farið að blómstra á ný og að fólk flytji úr landi. Fólk er farið að taka út séreignarsparnaðinn sinn sem á að vera heilagur. Allur lífeyrissjóður á að vera heilagur af því að hann er óaðfararhæfur en nú er ríkisstjórnin að opna enn frekar á það að fólk taki út séreignarsparnaðinn í daglega neyslu sem er mjög alvarlegur hlutur. Það er verið að færa vandamál framtíðarinnar enn framar af því að fólk sem tæmir lífeyrissjóðina sína lendir náttúrlega fyrst og fremst á ríkinu fyrir rest. Við erum jafnvel farin að horfa fram á það að nú þegar sé orðinn nokkurs konar vísir að gegnumstreymiskerfi vegna þessa, sérstaklega líka út af því að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn lítur á lífeyriseign landsmanna sem eign ríkisins í bókhaldi sínu.

Varðandi vinnubrögðin við frumvarpið þá þarf ég náttúrlega ekki að rifja það upp með þingmanninum að það var fellt í allsherjarnefnd, það náðist ekki út úr nefndinni nema vílað og dílað væri við stjórnarþingmenn um ákveðin atriði. Ég spurði sérstaklega í allsherjarnefnd um kostnaðinn við að bæta við aðstoðarmönnum og þá var sagt að hann yrði kannski 30 milljónir í viðbót. Þetta er allt svona kannski og kannski. Það er getið um 100 milljónir í frumvarpinu og áætlaður kostnaður vegna þessara aðila sem koma aukalega er 30 milljónir.

Varðandi ESB-umsóknina þá er það alveg klárt og hefur komið fram á þessum þingvetri að kostnaður við ESB-aðlögunarferlið er algjörlega hulinn. Þess vegna sendi ég inn í hvert einasta ráðuneyti spurningar um verktakagreiðslur sem dæmi, því að verktakar koma ekki fram á launaskrá ríkisins. Ég sendi inn fyrirspurn í hvert einasta ráðuneyti um ferðir starfsmanna vegna umsóknarinnar. Þarna er kominn einhver kostnaður sem ég er að reyna að halda utan um. Alvarlegasti hluturinn er sá að stjórnsýslan var látin bera vinnuna við þetta aðlögunarferli og fækka lítillega starfsfólki en það kemur ekki (Forseti hringir.) fram í ríkisreikningnum að þetta sé akkúrat ESB-kostnaður. Á meðan liggur íslenska stjórnsýslan niðri og út af því gengur (Forseti hringir.) endurreisnin svona ofurhægt að starfsfólkið er upptekið í öðru.