139. löggjafarþing — 163. fundur,  14. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[22:13]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þingmaður hélt ágæta ræðu. Ég vil gjarnan spyrja hana um hugmyndir hennar um lagaskrifstofu og hvort þær séu í anda þess sem ég nefndi hér í gærkvöldi, að Alþingi mundi semja og ritstýra öllum frumvörpum sem hér eru afgreidd sem lög, þ.e. nefndir Alþingis, hvort það væri í takt, hvort það væri í rauninni sama hugmyndin.

Svo vildi ég spyrja hv. þingmann, af því að hún nefndi hér að frumvarpið væri flutt til að losa út ákveðinn ráðherra. Nú man ég það frá fornri tíð að hv. þingmenn Steingrímur J. Sigfússon, Ögmundur Jónasson og Jóhanna Sigurðardóttir, tíðkuðu það iðulega að kalla eftir ráðherrum um miðja nótt. Ég man eftir því að einu sinni var kallað á Geir H. Haarde um miðja nótt, hæstv. fyrrverandi forsætisráðherra og þáverandi fjármálaráðherra ef ég man rétt. Hann var kallaður hingað um miðja nótt, um þrjúleytið eða fjögurleytið, til að hlýða á mál manna. Er ekki eðlilegt að þessir menn, eins og hæstv. innanríkisráðherra Ögmundur Jónasson og hæstv. landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra Jón Bjarnason, sem menn hafa efasemdir um að styðji frumvarpið yfirleitt, kæmu hér og hlýddu á mál manna og helst tjáðu sig um málið? Því það virðist vera að ríkisstjórnin sé … (Gripið fram í.) Ég er að spyrja hv. þingmann hvort það sé ekki eðlilegt, ég þarf að vita hvort það sé eðlileg hugsun hjá mér, (Gripið fram í.) það er orðið svo langt liðið á kvöldið að ég verð að fá stuðning við það (Gripið fram í.) sem ég er að hugsa — ef ég fengi frið, herra forseti, fyrir frammíköllum hv. þingmanns, hann á svo bágt. Er ekki eðlilegt að kalla til þessa tvo hæstv. ráðherra sem hafa sett efasemdir og spurningarmerki við þetta frumvarp yfirleitt af því að þetta á að heita ríkisstjórnarfrumvarp? Þetta er mjög sérstakt. Og ég vildi gjarnan að hæstv. ráðherra Jón Bjarnason, af því að hann er hérna frammi í (Forseti hringir.) kaffistofu, komi og tjái sig um þetta mál.