139. löggjafarþing — 163. fundur,  14. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[22:59]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég er alls ekki þeirrar skoðunar að þessi kerfi séu forkastanleg. Ég held að þau hafi margt sér til ágætis. En það er alveg rétt, og ég get tekið undir það með þingmanninum, að eitt af vandamálunum í þessu öllu er hve ráðherrar geta oft verið þaulsetnir.

Það sem ég átti við er þetta. Það skiptir máli að búið sé að taka ákvarðanir um fyrirkomulag ráðuneytanna og verkaskiptingu þeirra áður en ráðherrarnir eru skipaðir til sinna starfa. Það liggi fyrir áður en einstaklingarnir eru skipaðir í ráðherrastöðurnar hvaða ráðuneyti eigi að vera og hvaða verkefni þau hafi og þannig tekið á því. Það var það sem ég átti við varðandi ráðherrana.

Hitt er alveg rétt sem hv. þm. Mörður Árnason benti á og ég fór yfir í ræðu minni, að ég gerði mér far um að skoða þetta kerfi. Ég hef haft áhuga á þessu. Niðurstaða mín var sú að það væri það mikil áhætta á því að hjá okkur yrði sú lausung sem einmitt leiddi til löggjafarinnar 1969, að ástæða væri til að hafa áhyggjur af því.

Annað sem ég lagði áherslu á í ræðu minni var að með því að horfa til Norðurlandanna, til Finnlands, fyndist lausn á málinu, sú lausn að sameina í raun og veru þessar tvær leiðir. Það verði bara komið á þeirri stjórnmálavenju að hver ríkisstjórn taki þessar ákvarðanir um hvernig verkaskiptingin verður o.s.frv., áður en ráðherrarnir eru skipaðir, gangi frá því í stjórnarsáttmála og beri það síðan strax fram á þingi sem fyrsta þingmál eða eitt af fyrstu þingmálum, sem Alþingi fjalli síðan um og gangi frá. Þar með náum við báðum markmiðum. Ég held að þetta gæti verið ágætisleið að lausn í þessu máli.