139. löggjafarþing — 163. fundur,  14. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[23:09]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Eitt sem einkennir auðvitað stjórnmálalíf okkar eru samsteypustjórnir. Samsteypustjórnum fylgir sá vandi að forsætisráðherra í slíkri ríkisstjórn á nokkuð bágt með að hlutast til um hverjir sitja sem ráðherrar fyrir samstarfsflokkinn. Sú regla er auðvitað ekki skrifuð en hún er hinn pólitíski raunveruleiki. Reyndar höfum við kannski orðið vitni að slíkum hlutum undanfarið. Ég held reyndar að vald forsætisráðherrans temprist alltaf að því leyti, þó að þetta yrði að lögum, þetta er alltaf sá pólitíski ómöguleiki sem fylgir samsteypustjórnum.

Ég hef í raun og veru miklu meiri áhyggjur af þeim þætti sem hv. þingmaður benti á sem er tilfærsla verkefna til þess eins að losa sig við erfiðan ráðherra eða losa um tök hans á málaflokki. Ég hef áhyggjur af því. Hitt læt ég mig minna varða hvort einum og einum ráðherra sé hent út úr ríkisstjórninni eða ekki, það er eins og gengur. (Forseti hringir.)