139. löggjafarþing — 163. fundur,  14. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[23:12]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Þetta var ekki auðveld spurning. Í þann tíma sem ég hef verið fjarri þingstörfum hef ég því miður ekki þróað með mér skyggnigáfu eða einhvers konar slíka hæfileika til að rýna í hugarheim þeirra sem hér um véla og verð því einungis að giska. Auðvitað blasa við mér eins og öðrum þau vandamál sem eru uppi í núverandi ríkisstjórn. Sá vandi sem fylgir einmitt samsteypustjórn er að þá á forsætisráðherra mjög erfitt með að gera eitthvað í því ef til dæmis ráðherra úr samstarfsflokki er óþægur ljár í þúfu. Þess vegna er ástæða til að hafa áhyggjur af því og velta því upp hvort sú mikla áhersla sem er lögð á að klára þetta mál núna, á sama tíma og mjög mikilvæg efnahagsmál bíða, geti verið — auðvitað vona ég og eiginlega treysti því að það sé ekki, það væri alveg óþolandi fyrir þingið að fást við þessi mál með þeim formerkjum. Maður treystir því að það sé ekki þannig, að menn horfi til þess að leysa vandamál í ríkisstjórninni sem uppi eru núna akkúrat þessa dagana. Ég bara neita að trúa því.

Ég vil nota tækifærið til að árétta annan svolítið áhugaverðan punkt í allri þessari umræðu, þ.e. það álit á þeim hugmyndum og breytingum sem stjórnlagaráðið og stjórnlaganefnd lögðu fram á dögunum sem kemur fram í frumvarpi forsætisráðherra. Það er alveg greinilegt að forsætisráðherrann hefur allt aðra skoðun á þessum hlutum. Þó að ákveðin atriði séu eins eru líka fjölmörg allt öðruvísi. Það er mjög áhugavert að velta fyrir sér, frú forseti, þeim skilaboðum sem eru send með þessu frumvarpi til þeirra sem unnu það verkefni.