139. löggjafarþing — 163. fundur,  14. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[23:20]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta allshn. (Vigdís Hauksdóttir) (F) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég ætlaði að ítreka beiðni þeirra þingmanna sem töluðu á undan mér, en nú hefur forseti upplýst að kalla eigi til þingfundar hæstv. innanríkisráðherra og er það vel. Í framhaldi af því langar mig til þess úr því að hér sitja þrír hæstv. ráðherrar einhvers staðar í hliðarsölum að forseti fari fram á það við (Forseti hringir.) þá að þeir sitji í þingsal. (Forseti hringir.)

(Forseti (ÁI): Athygli skal vakin á því að það er hægt að fylgjast með umræðum úr þingsal, annars staðar í húsinu og af skrifstofum þingmanna. Hæstvirtir ráðherrar eru í húsi og hlýða á mál þingmanna.)

Frú forseti. Ég veit vel að þingmenn hafa skrifstofur úti í Austurstræti og hinum megin við Austurvöll, en það (Forseti hringir.) hafa ráðherrar því miður ekki. Þess vegna er það sjálfsögð krafa — (Forseti hringir.)

(Forseti (ÁI): Hæstv. ráðherrar sem hér hafa verið nefndir eru í húsi, einir fjórir, og ráðstafanir verða gerðar til þess að kalla til þann ráðherra sem óskað hefur verið eftir.)

Ég þakka fyrir það, (Forseti hringir.) frú forseti. Að vísu fór tími minn í útskýringar forseta þannig að mér er líklega gert að hverfa úr ræðustóli. (Forseti hringir.)

(Forseti (ÁI): Það er rétt, hv. þingmaður.)

Ég fagna því ef hæstv. innanríkisráðherra verður kvaddur í salinn.