139. löggjafarþing — 163. fundur,  14. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[23:31]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Ég tek undir með hv. þingmönnum sem hafa óskað eftir því að hæstv. ráðherrar verði við þessa umræðu, enda virðist um að ræða eitt helsta áhugamál og eina mál stjórnarinnar á þessu hausti þrátt fyrir að mörg önnur aðsteðjandi vandamál blasi við okkur öllum sem að minnsta kosti viljum sjá þau.

Ég beini því til frú forseta að hún tryggi það að meðal annars hæstv. fjármálaráðherra verði viðstaddur þessa umræðu og komi til hennar. Ég var að undirbúa mína ræðu, hef ekki haldið neina ræðu um þetta mál, einungis farið í örfá andsvör, og rak þá augun í það að kostnaðarumsögn fjármálaráðuneytisins er gjörsamlega, ég ætla ekki að segja handónýt en hún er ekki nægjanlega vel unnin. Það kemur til að mynda engin upphæð fram í kostnaðarumsögn fjármálaráðuneytisins. Ég held að hæstv. fjármálaráðherra ætti að koma og vera viðstaddur þessa umræðu og ég vil að frú forseti tryggi að svo verði. Ég hef ekki séð aðra eins kostnaðarumsögn frá fjármálaráðuneytinu í háa herrans tíð. (Gripið fram í.)