139. löggjafarþing — 163. fundur,  14. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[23:35]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S):

(BVG: Verðandi ráðherra.) Virðulegi forseti. Ég kem ekki upp undir liðnum fundarstjórn forseta heldur ætla ég að halda nokkuð merkilega ræðu, sérstaklega fyrir hv. þm. Björn Val Gíslason sem kallar fram í.

Ég vil byrja á að ræða það sem barst í tal undir fundarstjórn forseta, um kostnaðarmat á frumvarpinu. Nú kemur fram í kostnaðarmati á frumvarpinu að reiknað er með að það kosti um 100 millj. kr. Það er líka gert ráð fyrir því í ákvæði laganna um að fjölga aðstoðarmönnum ráðherra í tvo sem geta síðan orðið allt að 23 að hægt verði að ráða sérstaklega þrjá til viðbótar því að talað er um í frumvarpinu að ráðuneyti séu um tíu og þá gætu þrír verið ráðnir í Stjórnarráðið á álagstímum. Ég hef sagt það í fyrri ræðum mínum að ég tel þetta mjög skynsamlegt að því leyti að tryggt sé að þegar verið er að ráða pólitíska ráðgjafa og aðstoðarmenn inn í ráðuneytin þá komi þeir með ráðherrunum og fari með ráðherrunum.

Síðan kemur breytingartillaga frá meiri hluta hv. allsherjarnefndar sem felur í sér að þetta ákvæði taki strax gildi um leið og lögin verða samþykkt, þ.e. að heimildin verði veitt. Ég kallaði sérstaklega eftir skýringum á því í fyrstu ræðu minni hvað þetta þýddi í raun og veru. Ég hef ekki fengið skýr svör við því hvað þetta þýðir miðað við stöðuna nú. Ég þekki til í sumum ráðuneytum, öðrum ekki. Ég veit til að mynda að í sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu hafa þrír pólitískir ráðgjafar verið ráðnir. Þýðir þetta að einn þeirra fer út eða verða þeir áfram eða er búið að koma þeim fyrir í einhverjar stöður? Hvað þýðir þetta í raun og veru? Hver er niðurstaðan?

Ég gerði mér grein fyrir því að eftir næstu kosningar þegar þetta yrði gert, eins og upprunalega var lagt upp með í frumvarpinu, mundi það þýða að þessir aðstoðarmenn færu út með viðkomandi ráðherrum og þá kæmu hugsanlega nýir inn eftir þessum lögum eins og þau voru upprunalega sett fram áður en breytingartillaga frá meiri hluta hv. allsherjarnefndar tók gildi. Ég hef ekki fengið þau svör sem ég hef kallað eftir. Ég hef reyndar fengið svör frá hv. þm. Vigdísi Hauksdóttur sem telur að það hafi komið fram á fundum hv. allsherjarnefndar að þetta væru um 130 millj. kr. Ég verð að gagnrýna mjög alvarlega að ekki skuli koma fram með breytingartillögunni frá hv. allsherjarnefnd neitt um það hvað þetta þýðir miðað við stöðuna í dag. Ég veit að það er búið að setja einstaka aðstoðarmenn inn í ráðuneytin sem sérfræðinga, skrifstofustjóra og þar fram eftir götunum en mér finnst að það þurfi að koma fram í frumvarpinu eða a.m.k. í umræðunni til að hv. þingmenn geti áttað sig á því hvað þetta þýðir í útgjöldum fyrir ríkissjóð núna og á næsta ári. Það er mjög mikilvægt.

Ef kostnaðurinn, eins og haldið var fram í dag sem ég þekki ekki af því að ég á ekki sæti í hv. allsherjarnefnd, er um 130 millj. kr. og hann er til viðbótar þeim pólitísku ráðningum sem þegar hafa átt sér stað þá finnst mér þetta gersamlega óviðunandi miðað við þær aðstæður sem uppi eru núna, enda er þess sérstaklega getið í frumvarpinu að vegna stöðunnar í efnahagsmálum sé lagt til að þetta taki gildi eftir næstu kosningar. Það er ekki hægt á þeim tímum sem við lifum núna, þar sem er verið að skera niður í heilbrigðisþjónustu, í velferðarmálum og öllum þessum viðkvæmu málaflokkum sem ég fullyrði að enginn hv. þingmaður er sáttur við að gera en verður samt að gera út af nauðsynlegum aðstæðum í ríkisfjármálunum, að leggja á sama tíma fram aukakostnað upp á um 130 millj. kr. — ef sú tala er rétt. Þess vegna óska ég eftir því að þeir hv. þingmenn sem sitja í allsherjarnefnd og koma hugsanlega í andsvör við mig upplýsi mig um þetta. (Gripið fram í: Um hvað?) Það er ekki hægt að bjóða upp á það að reka starfsfólk af heilbrigðisstofnunum landsins á sama tíma og ráðið er enn frekar í ráðuneytin.

Ég minni á að við sameiningu ráðuneyta, bæði undir innanríkisráðuneyti og velferðarráðuneyti, var minni hagræðingarkrafa gerð á þau en önnur ráðuneyti, annars vegar 3% á innanríkisráðuneytið og hins vegar 4% á velferðarráðuneytið, samt var verið að sameina tvö ráðuneyti. Þó svo að hæstv. forsætisráðherra og ríkisstjórnin hafi gefið út að það ætti að vera 9% niðurskurður í stjórnsýslunni varð ekki svo. Hvar er öll hagræðingin við þessar sameiningar? Það er oft og tíðum verið að fela kostnaðinn. Mér þykir dapurlegt að á sama tíma þurfi að fara í erfiðar aðgerðir við að skera niður á heilbrigðisstofnunum. Það segja tölurnar sem við fáum. Ég tel að mörgum hv. þingmönnum hafi brugðið þegar hv. þm. Sigmundur Ernir Rúnarsson spurði um stöðugildi sem hefði fækkað því að þá kom í ljós að nánast öll þau stöðugildi sem hafði fækkað í ríkiskerfinu var hægt að rekja til Landspítalans, megnið af þeim, en annars staðar í stjórnsýslunni hafði þeim fjölgað. Þar hafði stöðugildum fækkað um 348 frá 1. janúar 2009 til 31. desember 2010 og þar af eru 318 konur, 30 karlar. Á sama tíma og konurnar eru reknar af heilbrigðisstofnunum stæra einstaka hv. þingmenn, sem þykjast vera svokallaðir femínistar, sig á því að leggja grunn að kynjaðri fjárlagagerð. Í það er hægt að eyða tugum milljóna (Gripið fram í.) og setja óheyrilega peninga inn í ráðuneytin. Menn geta farið í svona stefnumörkun í ráðuneytunum, kynjaða fjárlagagerð og hvað þetta heitir nú allt saman, þegar við höfum efni á því. En þessi boðskapur um kynjaða fjárlagagerð hefur ekki mikinn tilgang að mínu viti þegar konurnar eru síðan reknar af heilbrigðisstofnunum og sérfræðingar ráðnir í ráðuneytin. Það kalla ég ekki skynsamlega ráðstöfun peninga.

Mér hefði fundist að það ætti að vinna þetta betur þar sem kæmi alveg skýrt fram hver hinn eiginlegi kostnaður er við að fara í þessar breytingar. Mér finnst mikilvægt að það komi fram. Ég ætla að ítreka það sem ég sagði áðan og hef sagt í fyrri ræðum mínum, að ég er hlynntur því að menn stígi skref í þá átt að gera þetta ef skilyrðið er alveg skýrt, þ.e. að menn muni þá ekki koma pólitískt ráðnum aðstoðarmönnum eða ráðgjöfum fyrir í ráðuneytunum í einhver störf áður en þeir fara sjálfir þaðan út. Þetta gildir hvort sem þessi hæstv. ríkisstjórn er við völd eða einhver önnur. Pólitískir aðstoðarmenn verða að koma og fara með ráðherrunum.

Eitt sem mig langar að nefna í lok ræðu minnar. Þegar ég fer yfir dagskrá þingsins er búið að setja inn tvö frumvörp, 34. og 35. mál sem döguðu uppi í gær, Farsýslan og Vegagerðin, þ.e. sameining þeirra stofnana. Ég vil að það komi skýrt fram að þar var held ég samdóma álit allra hv. þingmanna sem eiga sæti í samgöngunefnd og kemur meira að segja fram í meirihlutaáliti nefndarinnar að skynsamlegra væri að stíga stærri skref í þeirri sameiningu. Áætlað var að sameina fjórar stofnanir en það varð samdóma álit hv. samgöngunefndar að við ættum að stíga stærri skref. Fram kemur í meirihlutaálitinu að menn töldu ekki fært að færa á milli ráðuneyta við núverandi aðstæður vegna girðinganna þar á milli. Ég sagði þá og ég segi nú að þær breytingar sem verða þegar við erum búin að ná niðurstöðu um þetta frumvarp, eins og ég skil það, munu lækka girðingarnar. Einn af kostunum við þetta frumvarp, því það eru ekki bara gallar í því, er sá að við lækkum þessa múra og reynum að rífa þá niður þannig að við getum farið í skynsamlegar sameiningar á stofnunum þvert á ráðuneyti til að ná fram þeirri hagræðingu sem nauðsynlegt er á þeim tímum sem nú eru uppi.