139. löggjafarþing — 163. fundur,  14. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[23:47]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Valgerði Bjarnadóttur fyrir andsvarið. Það er nú samt sem áður þannig að við hv. þm. Valgerður Bjarnadóttir erum að mörgu leyti sammála um margt í þessu frumvarpi, þar á meðal það sem ég benti á í fyrri ræðu minni, að við hefðum átt að stíga lengra og ráða inn í Stjórnarráðið. Ég geri ekki athugasemdir við það hvað stjórnsýslan og þeir sem sinna henni í ráðuneytunum kjósa, hvaða flokk, það skiptir mig engu máli. Ég vil bara hafa faglega stjórnsýslu, sama hvar fólkið er og það er ekkert síður faglegt fólk í ráðuneytunum, sama hvaða flokk það kýs.

Ég nefndi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið og hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra sagðist ekki vera með neinn aðstoðarmann að sinni, en eftir að hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra tók við er hann búinn að ráða upplýsingafulltrúa, hann var með aðstoðarmann og hann hefur líka ráðið ráðgjafa, reyndar á verktakasamningi, útgerðarfélag, þannig að þá tel ég þrjá. Þess vegna vantar mig og vil fá yfirsýn yfir það hvað þessi útgjaldaaukning þýðir verði frumvarpið að veruleika. Mér finnst að hv. allsherjarnefnd hefði átt að leggja kostnaðarmat fram með breytingartillögu sinni. Hvað þýðir það að samþykkja þessi lög?