139. löggjafarþing — 163. fundur,  14. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[23:48]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég átta mig alveg á því og það stendur skýrt í frumvarpinu, það eru 20 aðstoðarmenn og þrír aðstoðarmenn sem hægt er að ráða inn í ráðuneytin komi upp ákveðin verkefni. Það er alveg hárrétt. Ég fór yfir það í ræðu minni áðan.

En hvað þýðir það miðað við stöðuna í dag? Það er það sem ég átta mig ekki á. Ég hef ekki þær upplýsingar, því miður. Ég á ekki sæti í hv. allsherjarnefnd. Mér finnst þetta mjög mikilvægt því að það hefur komið fram í andsvari í dag hjá hv. þm. Vigdísi Hauksdóttur að hún teldi það hafa komið fram í allsherjarnefnd að þetta þýddi um 130 millj. kr. útgjaldaaukningu. Ég veit það ekki og þess vegna er ég að kalla eftir þessum upplýsingum. (Gripið fram í.) Ég sit ekki í hv. allsherjarnefnd, hv. þm. Mörður Árnason. (Gripið fram í.) Ég veit það bara ekki. Þess vegna er ég að kalla eftir því — (Forseti hringir.)

(Forseti (ÁI): Forseti beinir þeim tilmælum til hv. þingmanna að vera ekki með tveggja manna tal heldur leyfa ræðumanni að nota sjálfur þann stutta tíma sem hann hefur til að svara andsvörum.)

Takk, virðulegi forseti. Það væri mjög æskilegt að hv. þm. Mörður Árnason kæmi í andsvör, hann gæti þá upplýst mig um kostnaðaraukninguna af þessu frumvarpi sem við komum til með að samþykkja á þessu þingi.