139. löggjafarþing — 163. fundur,  14. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[23:52]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessa ræðu. Þetta er mjög athyglisvert sem við sjáum hér, að menn eru að velta því fyrir sér í ræðu hver kostnaðurinn kunni að verða af þessu frumvarpi. Hleypur hann á 100 milljónum? 150 milljónum? 200 milljónum? Við höfum nú séð margt, m.a. Sjóvá og Icesave. Við höfum séð ótrúlega mikil fjárútlát hjá þessari ríkisstjórn án þess að menn viti raunverulega um hvaða upphæðir er að ræða og í hvað þær fara. (VigH: ESB.) ESB-umsóknina og svona mætti áfram telja.

Hvað telur hv. þingmaður, er ekki einfaldlega þörf á því að reikna á nýjan leik út allan kostnað við þetta frumvarp? Er ekki ótækt hjá Alþingi Íslendinga að samþykkja frumvarp með þessum hætti á sama tíma og skorið er niður til heilbrigðismála, menntamála og velferðarmála, að þá sé lagt fram stjórnarráðsfrumvarp og breytingartillögur við það án þess að menn hafi nokkra hugmynd um hver kostnaðurinn verður við þessari breytingar?