139. löggjafarþing — 163. fundur,  14. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[23:54]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er það sem ég er búinn að kalla eftir í þessari umræðu, búinn að halda hér þrjár ræður og kallaði töluvert eftir þessu í fyrstu ræðu minni. Auðvitað snýst spurningin um fjölda aðstoðarmanna í dag. Það er það sem ég veit ekki. Það hlýtur að vera hægt að fá þær upplýsingar innan úr Stjórnarráðinu, hvað þetta þýði í útgjöldum.

Það er mjög mikilvægt að mínu viti að menn viti þá, og hv. þingmenn sem koma til með að samþykkja þetta, hvað þetta þýðir. Það liggur fyrir að það er búið að fara í mjög erfiðar og sársaukafullar aðgerðir. Þetta finnst mér snúast um forgangsröðun eins og ég benti á í ræðu minni áðan. Það er hægt að bruðla með peninga í alls konar gæluverkefni. Ég hélt að sá tími væri liðinn, að menn yrðu að hugsa nánast um hverja einustu krónu. Það er tekist á í þinginu við afgreiðslu fjárlaga um kannski 100 þús. kalla, 500 þús. kalla, en svo þegar stóru tölurnar koma, hvort það eru 100 milljónir eða milljarðar, er bara ekkert fjallað um það og það er algjört aukaatriði að koma þeim upplýsingum inn í þingið. Það er óviðunandi að mínu mati.