139. löggjafarþing — 163. fundur,  14. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[23:56]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta er alveg hárrétt sem hv. þingmaður er að segja hér. Það er akkúrat það sem ég fór yfir í ræðu minni áðan, ég notaði hana nánast alla til að fara yfir þetta virðingarleysi og skeytingarleysi gagnvart fjármunum. Við horfum upp á það að það er hægt að setja inn í stjórnsýsluna helling af peningum á sama tíma og verið er að skera niður á heilbrigðisstofnunum. Það er mjög sláandi sem kemur þar fram. Þess vegna hélt ég að þingið eða framkvæmdarvaldið mundi vakna við þær upplýsingar sem hafa komið fram, tölulegar upplýsingar um hvað þetta hefur þýtt. Það virðist bara ekki skipta neinu máli, enda sjáum við það í meðförum Alþingis. Það hefur vakið mína mestu undrun frá því ég kom inn á þing. Þegar verið er að ræða fjáraukalög, fjárlög, ríkisreikning eða lokafjárlög, þar sem verið er að færa til jafnvel tugi milljarða, tæmist salurinn nánast um leið og byrjað er að tala, örfáir hv. þingmenn taka þátt í umræðunni og hinir setja sig ekkert inn í málin. Þetta er nokkuð sem við verðum að breyta. Það verður að ná agaðri fjármálastjórn og það er akkúrat það sem við erum að reyna að vinna núna í hv. fjárlaganefnd, það er ágætissamstaða um það og (Forseti hringir.) ég ber þá von í brjósti að við náum einmitt að breyta þessu og fjalla (Forseti hringir.) um þetta af þeirri ábyrgð sem okkur ber skylda (Forseti hringir.) til að gera.