139. löggjafarþing — 163. fundur,  14. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[23:58]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er í því að fara í gegnum þessi gögn og er alltaf að rekast á eitthvað nýtt sem maður veltir fyrir sér. Reyndar væri gott ef hv. þingmenn Hreyfingarinnar yrðu hér á morgun og svöruðu þessum spurningum sem ég ætla reyndar að beina til hv. þingmanns. Við erum með breytingartillögu frá Hreyfingunni við þetta frumvarp. Ég velti fyrir mér hvað það þýðir þegar hér er lögð fram tillaga þar sem stendur, með leyfi forseta:

„Ráðuneytisstjórum er skylt að mótmæla eða koma að athugasemdum telji þeir gjörðir ráðherra ekki samræmast lögum eða vönduðum stjórnsýsluháttum. Samsvarandi skylda hvílir einnig á skrifstofustjórum …“

Gefum okkur að það verði sett í lög að ráðuneytisstjórum, starfsmönnum ráðuneytanna, sé skylt að koma að mótmælum ef þeir sjá eitthvað sem þeir vilja gera athugasemdir við hjá ráðherranum. Ef þeir gera það ekki, er mögulegt að þeir séu að baka sér einhverja skaðabótaskyldu eða gerast samsekir um eitthvað?