139. löggjafarþing — 163. fundur,  14. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[23:59]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Þetta er einn af þeim hlutum sem menn verða að ræða vel og fara efnislega yfir, til að mynda það sem kemur fram í frumvarpinu þar sem hæstv. ráðherrum hverjum og einum er skylt að fara yfir öll atriði á ríkisstjórnarfundum sem gætu komið til úrskurðar í stjórnsýslunni, og þá velti ég oft fyrir mér að það er í fyrsta lagi huglægt mat hvað er mikilvægt og gæti hugsanlega komið. Reyndar tel ég að flestallt geti komið sem varðar einstaka hæstv. ráðherra til ákvarðanatöku í stjórnsýslunni. Þá veltir maður fyrir sér hvort þetta sé með þeim hætti að einstakir hæstv. ráðherrar munu fara inn á ríkisstjórnarfund og lesa upp allt sem er að gerast í ráðuneytinu alveg frá A–Ö til að vera tryggir á því að komi upp eitthvað seinna muni það hafa verið tilkynnt til ríkisstjórnar. Þetta eru ákveðnir hlutir sem menn verða að fara betur yfir og ræða hvernig muni virka. Það er huglægt mat sem kemur þarna fram. Ég átta mig ekki alveg á því hvar mörkin eru. Það er voðalega vont að hafa texta sem er huglægur af því að það er mismunandi hvernig einstakir hæstv. ráðherrar munu túlka hann.