139. löggjafarþing — 163. fundur,  15. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[00:24]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Jóni Gunnarssyni fyrir ræðu hans. Í upphafi ræðunnar fjallaði hann um meginmarkmið laganna, þ.e. að færa valdsvið um skiptingu ráðuneyta frá þinginu til forsætisráðherra. Í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis og skýrslu þingmannanefndarinnar var fjallað um þessi mál. Meginniðurstöður nefndarinnar varðandi Alþingi voru þær að það þyrfti að auka sjálfstæði þingsins gagnvart framkvæmdarvaldinu og leggja meiri áherslu á eftirlitshlutverk þingsins og auka fagmennsku og undirbúning löggjafar. Þingmannanefndin taldi brýnt að Alþingi tæki starfshætti sína til endurskoðunar, verði og styrkti sjálfstæði sitt og markaði skýr skil á milli löggjafarvalds og framkvæmdarvalds. Alþingi ætti ekki að vera verkfæri í höndum framkvæmdarvalds og oddvitaræðis.

Mig langar að spyrja þingmanninn hvort hann telji að þær meginniðurstöður sem þingmannanefndin komst að og setti í skýrslu sína, og í þingsályktunartillögu sem síðan var samþykkt samhljóða á þingi, að meginmarkmið laganna, þ.e. að færa vald frá Alþingi og til forsætisráðherra, samrýmist niðurstöðunum á einhvern hátt. (Forseti hringir.) Stefnir það kannski í þveröfuga átt? Það væri áhugavert að heyra álit þingmannsins á því.