139. löggjafarþing — 163. fundur,  15. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[00:28]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Herra forseti. Ég held að skoðun hv. þingmanns á þessu hafi komið nokkuð skýrt fram.

Annað meginmarkmið þessa lagafrumvarps kemur fram í 4. gr. þar sem lagt er til að forsætisráðherra geti með forsetaúrskurði komið með tillögu um að færa til ákveðna málaflokka. Í breytingartillögum meiri hlutans er það ekki lengur heilt ráðuneyti sem hægt er að færa til heldur einstök málasvið. Finnst þingmanninum líklegt að það leiði til meiri formfestu að forsætisráðherra geti tekið einstök mál af ráðherrum og fært til annarra, í ljósi þess sem væntanlega er ástæðan fyrir því að við fjöllum um þetta mál, þ.e. efnahagshrunið, bankahrunið, stjórnsýsluhrunið, í ljósi Glitnishelgarinnar svokölluðu þegar þáverandi viðskiptaráðherra var hafður afsíðis og mál tengd ráðuneyti hans færð til annarra ráðherra? Telur þingmaður að það leiði til þess að ábyrgð hvers og eins ráðherra, ráðuneytis, ráðuneytisstjóra og embættismanna í ráðuneytunum, verði skýrari þegar valdið er ekki lengur formfest á löggjafarsamkundunni, heldur geti forsætisráðherra lagt fram slíka tillögu á hverjum tíma? Finnst þingmanninum líklegt að með því verði öllum ljóst, eftirlitsaðilum þings, fjölmiðlum og öðrum, hvar eigi að (Forseti hringir.) fylgjast með og hvar mörkin liggja á milli einstakra ráðuneyta og ábyrgðarsviða þeirra?