139. löggjafarþing — 163. fundur,  15. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[00:33]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessa ræðu. Ég ætlaði að vera á svipuðum nótum í fyrirspurnum mínum til hans og kom fram í síðasta andsvari, það er þetta gríðarlega valdaafsal. Mig langar að ræða við hv. þingmann um einmitt þann möguleika sem felst í þessu frumvarpi að mögulegt sé að flytja málefni einhliða frá einu ráðuneyti til annars.

Hv. þingmaður kom inn á hvalveiðar og nú eru hvalveiðar í sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu, en eins og hv. þingmaður benti á flokkast hvalveiðar víða í kringum okkur undir umhverfisráðuneyti. Ekki alls fyrir löngu eða strax þegar þing kom saman var boðaður sameiginlegur fundur í sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd, utanríkismálanefnd og umhverfisnefnd til að ræða stöðu hvalveiða. Hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hefur í það minnsta hingað til fylgt stefnu Alþingis, stefnu Íslendinga, um að okkur beri að stunda sjálfbærar hvalveiðar eða halda því áfram. Á þeim fundi hefur kvisast út og birst opinberlega mikil reiði þeirra sem eru hliðhollir Evrópusambandsaðild í garð embættismanna ráðuneytisins og hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.

Ég veit að hv. þingmaður hefur góða þekkingu á málefnum sem tengjast hvalveiðum — telur hann ekki raunverulega hættu fólgna í því, nái þetta frumvarp fram að ganga í þeirri mynd sem það er núna, að hæstv. forsætisráðherra (Forseti hringir.) muni í nafni ESB-umsóknarinnar eða í þeim tilgangi einfaldlega að flytja þennan málaflokk úr (Forseti hringir.) sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu og að þá hefði Alþingi Íslendinga ekkert um það að segja lengur?