139. löggjafarþing — 163. fundur,  15. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[00:38]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta valdaafsal sem mönnum er svo tíðrætt um og er búið að vera í umræðunni er rauði þráðurinn í þessu frumvarpi og í rauninni það sem mest hefur verið gagnrýnt. Nú virðist frumvarpið einkum og sér í lagi hafa verið lagt fram vegna þess. Það er stóra hryggjarstykkið. Ef maður skoðar þróunina eða réttara sagt hverju hæstv. forsætisráðherra hefur verið að reyna að ná fram varðandi stjórnarráðsbreytingar, tilflutning á málaflokkum og öðru slíku, þá hefur einfaldlega ekki gengið að koma því í gegnum þingið, löggjafarvaldið eða Alþingi hefur sýnt mjög sjálfstæða skoðun hvað það snertir. Hæstv. forsætisráðherra bregst við með þessum hætti.

Erum við ekki á verulega hættulegri braut þegar hæstv. forsætisráðherra nær ekki málum í gegnum Alþingi Íslendinga og grípur til þess ráðs að taka einfaldlega völdin frá Alþingi og færa yfir til framkvæmdarvaldsins? Er það ekki verulega hættulegur hugsunarháttur hjá forustumönnum ríkisstjórnarinnar að telja það sjálfsagðan hlut að koma fram með frumvarp á Alþingi árið 2011 sem felur það í sér að færa vald frá Alþingi einungis vegna þess að þeir hafa ekki komið málum í gegnum Alþingi vegna meirihlutaandstöðu við þau? Hvaða hugsun býr þarna að baki? (Forseti hringir.) Er það ekki hættulegur hugsunarháttur?