139. löggjafarþing — 163. fundur,  15. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[00:40]
Horfa

Jón Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta er mjög hættuleg vegferð. Ég er algjörlega sammála hv. þingmanni um það. Af hverju skyldum við vera komin í þessa stöðu? Það er umhugsunarefni af hverju svo er. Það er mikill ágreiningur á ríkisstjórnarheimilinu í mjög mörgum málum. Hæstv. forsætisráðherra hefur ekki tekist að halda hjörð sinni saman svo vel sé. Eru þetta þá ekki tilburðir til að auka vald hæstv. forsætisráðherra, herða tökin þannig að ráðherranum sé mögulegt að setja meiri þrýsting á aðra ráðherra í ríkisstjórninni og á þingmenn ríkisstjórnarflokkanna? Ég held að það sé ástæðan fyrir því að þetta kemur fram og það eigi að keyra það í gegn með slíku offorsi sem raun ber vitni.

Af hverju skyldu þingmenn þessara flokka vera sammála þessu? Hver er ástæðan fyrir því? Hver er ástæðan fyrir því að þingmenn Vinstri grænna, sem hafa í dag talað algjörlega þvert á fyrri málflutning sinn um sambærileg mál, hafa skipt um skoðun? Og hver er ástæðan fyrir því að hv. þingmenn Samfylkingarinnar eru svo áfram um þetta núna?

Við komum alltaf að sama punktinum í þessu ríkisstjórnarsamstarfi, sem er rótin að öllu: Það er þessi blessaða aðildarumsókn að Evrópusambandinu. Það skal öllu fórnað á því altari — öllu. Og þingmenn eru tilbúnir að láta það ganga yfir sig jafnvel þótt það sé þeim þvert um geð til þess að halda lífi í ríkisstjórninni sem er í raun ekki orðið annað en hræðslubandalag (Forseti hringir.) af því hún getur ekki lengur horfst í augu við veruleikann og þjóð sína.