139. löggjafarþing — 163. fundur,  15. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[01:15]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta allshn. (Vigdís Hauksdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Atla Gíslasyni fyrir afar einlæga ræðu. Við skulum minnast þess að hv. þm. Atli Gíslason fór fyrir þingmannanefndinni sem var falið að lesa úr skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis þannig að hér er um þungavigtarþingmann að ræða í þessari umræðu. Við skulum ekki gleyma því.

Hann fjallaði um að hæstv. forsætisráðherra hefði skipað aðra nefnd strax eftir að þingmannanefnd var skipuð til að gera lítið úr þingmannanefndinni. Hann sagði sjálfur að það hefði valdið titringi innan þingmannanefndarinnar. Vissulega benti hann á þá staðreynd að hæstv. forsætisráðherra velur ófrið þegar friður er í boði en það er nokkuð sem hæstv. forsætisráðherra hefur tamið sér. Hér í kvöld endurspeglast til dæmis sú meðvirkni með þeim aðila sem fer nú með ráðherradóm í forsætisráðuneytinu með því að hér titrar allt ef hún talar. (Forseti hringir.)

Mig langar að spyrja þingmanninn: Hvers vegna leggur ríkisstjórnin svo mikla áherslu á að þetta stjórnarráðsfrumvarp verði klárað á þessu þingi?