139. löggjafarþing — 163. fundur,  15. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[01:17]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta allshn. (Vigdís Hauksdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Atla Gíslasyni kærlega fyrir svarið. Við skulum líka minnast þess að þessi sami þingmaður hefur yfirgefið ríkisstjórnarflokkana og það kom líklega fram í máli hans hér í kvöld hvers vegna hann tók þá ákvörðun að ganga út úr ríkisstjórninni. Hann fór yfir það sem kemur fram í frumvarpi þessu og varað var við í rannsóknarskýrslu Alþingis og af þingmannanefndinni og í fleiri skýrslum, að hér ríkti foringjaræði, en nú er það gert að skilyrði í frumvarpinu að færa allt vald undir forsætisráðherra. Það er ekki nóg með það, heldur á líka að færa forsætisráðherra löggjafarvald. Þetta er mjög alvarlegt. Hér liggur ESB-umræðan undir. Það er alveg greinilegt og þingmaðurinn er sammála mér í því. Þegar hv. þingmaður minntist á ESB ókyrrðust meira að segja þingmenn Samfylkingarinnar allverulega og báðu um að fá að koma í andsvör. Það var því miður búið að fylla kvótann en þetta er greinilega mjög viðkvæmt mál hjá Samfylkingunni.

Hvers vegna heldur þingmaðurinn (Forseti hringir.) að hér sé farið gegn rannsóknarskýrslu Alþingis og skýrslu þingmannanefndarinnar með svo afgerandi hætti þar sem Samfylkingin (Forseti hringir.) lagði á það ofuráherslu í kosningabaráttunni að hér ætti allt að vera opið og gegnsætt (Forseti hringir.) og foringjaræði aflagt?