139. löggjafarþing — 163. fundur,  15. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[01:21]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Í þessari tilvitnun er staðhæft að þær úrbætur sem hér eru lagðar til, þær breytingar sem eru lagðar til með frumvarpinu, séu í öllum meginatriðum grundvallaðar á þeim tillögum sem settar eru fram í skýrslu þingmannanefndarinnar sem byggði á skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis.

Svo langar mig til að spyrja út í nefndarálit meiri hluta hv. allsherjarnefndar en þar stendur, með leyfi herra forseta:

„Frumvarpið byggist á tillögum úr skýrslunni Samhent stjórnsýsla en þar var fjallað um það hvernig unnt væri að bregðast við tillögum og ábendingunum í þessum skýrslum.“ — Skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis og þingmannanefndarinnar. — „Nefndin fjallaði m.a. um það hvort nægilega langt væri gengið í frumvarpinu við að fylgja eftir ábendingum og tillögum í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis og skýrslu þingmannanefndarinnar og hvort breytingarnar í frumvarpinu séu til þess fallnar að styrkja stjórnkerfið, skýra ábyrgð og verkaskiptingu innan þess. Fyrir nefndinni kom fram (Forseti hringir.) að markmiðið með breytingunum er að auka sveigjanleika innan ráðuneyta og stofnana og að verkaskipting verði skýr og enn fremur ábyrgð á verkefnum.“

Er þetta rétt?