139. löggjafarþing — 163. fundur,  15. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[01:34]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Í fyrsta lagi vil ég inna hæstv. forseta eftir því hversu lengi við megum gera ráð fyrir að þessi þingfundur standi. Nú vantar klukkuna 25 mínútur í tvö og það eru nefndarfundir í fyrramálið þannig að það væri ágætt að heyra frá hæstv. forseta hver hennar hugur er til þess.

Í öðru lagi vil ég benda hæstv. forseta á að ég á ræðu mína eftir. Ég hef ekki talað í þessu mikilvæga máli í ræðuformi. Ég hef farið í eitt og eitt andsvar, sem ekki er orð á hafandi. Ég vil fara fram á það við hæstv. forseta að hæstv. forsætisráðherra verði viðstaddur þegar ég flyt ræðu mína, ég hef nokkrar fyrirspurnir sem ég vil beina til hennar. Ég vil einnig fara fram á að hinn forustumaður stjórnarflokksins, hæstv. fjármálaráðherra, verði viðstaddur þessa umræðu. Ég tel mjög brýnt að það ágæta fólk sem stendur að þessu máli verði viðstatt umræðuna og svari þeim spurningum sem ég ætla að leggja fram í ræðu minni á eftir.

(Forseti (ÁI): Forseti vill upplýsa að bæði hæstv. forsætisráðherra og hæstv. fjármálaráðherra eru í húsinu og hlýða á orð þingmanna. Hv. þm. Birkir Jón Jónsson er á mælendaskrá en á undan honum eru einir þrír hv. þingmenn þannig að tíminn er nægur.)