139. löggjafarþing — 163. fundur,  15. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[01:45]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Ég ætlaði að beina máli mínu til frú forseta og fara fram á það í mestu vinsemd að forseti beini því til þingmanna sem koma hér upp, til að mynda forsvarsmanns meiri hluta allsherjarnefndar sem fer upp og ræðir efnislega um mál, að það sé miklu auðveldara fyrir hv. þingmann að setja sig á mælendaskrá og geta þá rökstutt mál sitt á lengri tíma en þeirri mínútu sem við höfum til að ræða um fundarstjórn forseta.

Þar fyrir utan langaði mig til að segja og bera það undir frú forseta hvort þessi umræða og sá tími sem við erum að ræða þetta mál, um miðja nótt, sé ekki dæmi um það sem við erum öll að gagnrýna í efnislegu umræðunni að sjálfstæði þingsins sé ekkert. Mig langar að spyrja frú forseta: Hver stjórnar því að við sitjum hér og ræðum þetta mál dag eftir dag og endalaust og hvenær lýkur þessari umræðu? (Forseti hringir.) Hvenær lýkur þessum septemberstubbi sem átti að ljúka á morgun?